132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.

518. mál
[12:51]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að það vefjist ekki fyrir nokkrum manni að það er nauðsynlegt að ráðast í framkvæmdir til að bæta aðstöðu farþega á Egilsstaðaflugvelli og þarf varla að eyða löngum tíma í að ræða það.

Ég ætla að fara aðeins inn á aðrar brautir. Hæstv. ráðherra fór í svari sínu inn á trúaratriði sitt varðandi flugvöllinn fyrir innanlandsflugið í Reykjavík. Hæstv. ráðherra sagði að innanlandsflug verði einungis rekið frá Reykjavíkurflugvelli. Það er ótrúlegt að hlusta á hæstv. ráðherra standa í ræðustóli Alþingis og fara aftur og aftur með slíkar skoðanir, oft og tíðum órökstuddar með öllu. Hvernig í ósköpunum ætlar hæstv. ráðherra að halda því fram að það sé einungis hægt að reka innanlandsflug á Íslandi frá flugvellinum í Reykjavík? Af hverju er það t.d. ekki hægt frá flugvellinum í Keflavík? Getur hæstv. ráðherra svarað því?