132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.

518. mál
[12:54]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Tvískinnungur Sjálfstæðisflokksins í málefnum flugvallarins í Vatnsmýrinni er með nokkrum ólíkindum. Forustumaður Sjálfstæðisflokksins og borgarstjóraefnið Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson boðar það afdráttarlaust, að ég hef heyrt, að flugvöllurinn eigi að víkja úr Vatnsmýrinni. Þar hafa menn rætt ýmsar leiðir eins og að hann fari til Keflavíkur og þar verði rekinn einn innanlandsflugvöllur og gerðar verði fyrirtaksbrautir suður eftir þannig að farartíminn á milli Reykjavíkur og Keflavíkur verði ekki nema hálftími.

Á sama tíma og hæstv. samgönguráðherra boðar að byggja skuli nútímalega og glæsilega samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni, eins og ráð hefur verið fyrir gert, hafa báðir stóru flokkarnir í Reykjavík, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn, tekið undir það hvor með sínum hætti að flugvöllurinn hljóti að víkja úr Vatnsmýrinni. Margir tala um að hann fari til Keflavíkur, aðrir upp á Hólmsheiði, kostirnir eru nokkrir. En tvískinnungur Sjálfstæðisflokksins í þessu máli kemur mér verulega á óvart.