132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Aðstaða farþega á Egilsstaðaflugvelli.

518. mál
[12:58]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Já, fyrirspurnin átti að snúast um Egilsstaðaflugvöll en ekki Vatnsmýrarflugvöllinn. Ég er hins vegar sammála síðasta ræðumanni hvað það varðar að það eru mjög þverpólitískar og skiptar skoðanir í öllum flokkum um það mál.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör og þingmönnum sem hér hafa kvatt sér hljóðs. Vegna andsvaranna fór umræðan svolítið að snúast um annað en mér fannst hún upphaflega eiga að snúast um en ég tek undir athugasemd hv. þm. Kristjáns Möllers hvað varðar ferjusamgöngur á Seyðisfirði. Vissulega þurfa þær að njóta ákveðins forgangs líka. Það er búist við aukinni umferð þar eins og um Egilsstaðaflugvöll.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason kom með ákveðnar athugasemdir til Vinstri grænna. Ég tel að þetta séu bara bein ruðningsáhrif, sem við þingmenn Vinstri grænna höfum svo gjarnan bent á, vegna stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Þetta er eitt af því sem hefur þurft að sitja á hakanum vegna þenslu.

Egilsstaðaflugvöllur býður á stundum farþegum upp á hálfan fermetra í pláss og öryggismálin eru í miklum ólestri, samkvæmt úttekt sýslumannsins á Seyðisfirði. Hún segir, með leyfi forseta:

„Lagfæringar vegna þeirra atriða sem ég taldi upp áðan eru mjög brýnar. Þær geta ekki farið fram án aðkomu tollstjóra þar sem nauðsynlegt er að hagsmunir tollstjóra og umráðaaðila flugstöðvarinnar fari saman.“

Þetta er eitthvað sem sýslumaður Seyðisfjarðar, Ástríður Grímsdóttir, segir að verði að gerast strax. Það getur ekki beðið fram á næsta haust. Þess vegna spyr ég hæstv. samgönguráðherra enn og aftur: Sjáum við einhverjar tímasetningar í þessu máli?