132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Lenging flugbrautarinnar á Akureyri.

519. mál
[13:02]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hjá Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri var unnið verkefnið millilandaflug frá Norður- og Austurlandi til áfangastaða í Evrópu. Í skýrslunni kemur fram að Akureyrarflugvöllur sé vannýttur og nauðsynlegt að lengja hann til að skapa forsendur fyrir aukinni nýtingu. Njáll Trausti Friðbertsson, viðskiptafræðingur og flugumferðarstjóri, hafði umsjón með verkefninu og hann segir, með leyfi forseta:

„Akureyrarflugvöllur fullnægir öllum helstu kröfum flugrekstraraðila öðrum en flugbrautarlengd. Með því að lengja völlinn í 2.400 metra munu fleiri tegundir flugvéla geta notað hann og um leið yrði völlurinn hentugri fyrir lággjaldaflugfélög.“

Í samgönguáætlun 2005–2008 er ekki gert ráð fyrir lengingu Akureyrarflugvallar, heldur einungis að gerð verði könnun fyrir þörf á lengingu flugbrautarinnar, ásamt fyrstu kostnaðaráætlun. Njáll segir einnig, með leyfi forseta:

„Lenging Akureyrarflugvallar um 460 metra er forsenda þess að hægt sé að hefja arðvænlegt millilandaflug til og frá Akureyri. Lengingin kostar 300 til 350 milljónir króna, svipað og tíu til fimmtán kílómetra langur vegarspotti.“

Kaupfélag Eyfirðinga kostaði rannsóknarverkefnið og sagði Andri Teitsson, þáverandi framkvæmdastjóri KEA, með leyfi forseta, að félagið væri tilbúið að leggja fram umtalsverða fjármuni svo að hægt yrði að ráðast í lengingu flugbrautarinnar sem fyrst. „Við stefnum á að ræða við samgönguyfirvöld og þá fyrst kemur í ljós hvort hægt er að flýta framkvæmdum og hversu mikla fjármuni KEA er tilbúið að leggja í verkefnið,“ sagði Andri

Millilandaflug um Akureyrarflugvöll er sífellt að aukast en lenging vallarins er forsendan, eins og áður sagði, fyrir áætlunar- og fraktflugi frá Akureyri til annarra landa. Það er ferðaþjónustu og atvinnulífi á Norðurlandi ómetanlegt að hafa kost á beinu flugi til Akureyrar. Um þetta hefur m.a. aðalfundur Eyþings ályktað og lagði áherslu á að lenging vallarins væri forgangsmál við endurskoðun næstu samgönguáætlunar. Það kom fram í framsöguræðu samgönguráðherra á Alþingi með tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2002–2005 að ríkisstjórnin hefði ákveðið að hægja á opinberum framkvæmdum til að draga úr spennu sem ríkir í efnahagslífi þjóðarinnar. Í framsögunni segir einnig, með leyfi forseta:

„Nýframkvæmdir flugvallar eru að þessu sinni ekki stór hluti útgjalda samgönguáætlunar. Áætlaður stofnkostnaður á tímabilinu eru tæpir 1,4 milljarðar og þar af er verið að greiða af lánum vegna Reykjavíkurflugvallar um hálfan milljarð.“ Síðan segir: „Aðrar framkvæmdir tengdar flugvöllum eru lenging og endurbygging flugvallarins hjá Þingeyri, endurbætur á Akureyrarflugvelli, Egilsstaðaflugvelli og Bakkaflugvelli. Samgönguáætlun gerir ráð fyrir að úttekt verði gerð vegna lengingar á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem þjóna eigi millilandaflugi.

Að lokum má nefna að tæplega hálfur milljarður er áætlaður til flugöryggisbúnaðar og annarra framkvæmda.“

Auk þess segir að samdrátturinn sé einungis frestun framkvæmda þar sem reiknað er með að fjármagnið komi til baka sem fjárveitingar á árunum 2007–2008.

Hæstv. forseti. Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra: Liggur þessi úttekt fyrir um lengingu flugvallarins á Akureyri eins og gera átti samkvæmt samgönguáætlun og hvenær er þá áformað að hefja framkvæmdir?