132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Lenging flugbrautarinnar á Akureyri.

519. mál
[13:05]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Eins og fram kom í svari mínu við fyrirspurninni um Egilsstaðaflugvöll er verið að skoða þörf fyrir lengingu flugbrautarinnar á Akureyri. Svar mitt er svohljóðandi:

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framkvæmdir við lengingu flugbrautar á Akureyri, enda er ekki gert ráð fyrir henni í flugmálahluta gildandi samgönguáætlunar. Á síðasta ári fór fram athugun á lengingu flugbrautarinnar. Sú athugun fól í sér frumathugun og gerð kostnaðaráætlunar vegna lengingarinnar og gerðar endaöryggissvæða. Kostnaður við gerð öryggissvæða var áætlaður u.þ.b. 127 millj. kr. og kostnaður við 460 m lengingu á flugbraut u.þ.b. 314 millj. kr. Framkvæmdakostnaður er því u.þ.b. 441 millj. kr. Við bætast 22 millj. vegna stjórnunar og eftirlits með framkvæmdum, heildarkostnaður nemur því, áætlað, 460 millj. kr.

Flugmálastjórn er að ljúka við gerð nýrrar viðamikillar skýrslu um lengingar þar sem m.a. kemur fram þarfagreining og hönnunar- og framkvæmdakostnaður. Stefnt er að því að taka lengingu flugbrautarinnar á Akureyri til sérstakrar skoðunar við endurskoðun samgönguáætlunar sem fram fer á þessu ári vegna framkvæmdanna á árunum 2007–2008.

Það er því við endurskoðun áætlunarinnar sem teknar verða ákvarðanir um framkvæmdir en það er búið að vinna þessa úttekt mjög vel, reyndar er ekki búið að skila skýrslu til samgönguráðuneytisins en fram hefur farið mjög viðamikil og vönduð vinna af hálfu Flugmálastjórnar og annarra sem að þessu hafa komið þannig að það ætti að vera hægt að taka afstöðu til þessarar framkvæmdar við endurskoðun á áætluninni.

Af þessu tilefni er nauðsynlegt að átta sig á að Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur gegna mikilvægu hlutverki sem varaflugvellir hvor á sínu svæði með sama hætti og Reykjavíkurflugvöllur er varaflugvöllur fyrir millilandaflugið. Við þurfum auðvitað að horfa til þess að aðstæður séu sem allra bestar hvað varðar hlutverk varaflugvallanna og með sama hætti á þessum flugvöllum, Egilsstaðaflugvelli og Akureyrarflugvelli, og brautirnar séu af þeirri lengd sem skapar möguleika til að efla og auka flug til þessara staða. En auðvitað verðum við að gera ráð fyrir að meginþungi millilandaflugsins sé frá alþjóðaflugvellinum í Keflavík. Við sem erum 300 þúsund, og auðvitað óskaplega stoltir Íslendingar, verðum að gæta okkar á því að fjárfesta ekki svo mikið í aðstöðu mjög margra flugvalla að millilandaflugið verði óhagkvæmt fyrir okkur vegna þess að við verðum að fá tekjur vegna uppbyggingar og reksturs flugvallanna af millilandafluginu aðallega. Það er uppistaðan í tekjuöflun flugmálaáætlunar og við þurfum að leita allra leiða til að gera þetta hagkvæmt. Engu að síður þurfum við að skapa okkur þær aðstæður sem geta orðið til þess að efla flutninga og ferðaþjónustu. Ef það er mat flugrekstraraðila að hagkvæmt sé að stunda vöruflutninga eða farþegaflug milli landa til Egilsstaða eða Akureyrar er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir okkur að taka tillit til þess.

Umfram allt eigum við að leggja áherslu á að alþjóðaflugvöllurinn í Keflavík verði okkar stóra meginstoð og að við leitum allra leiða til að auka umferðina um hann og efla hagkvæmni þeirrar starfsemi.