132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Lenging flugbrautarinnar á Akureyri.

519. mál
[13:17]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Þetta var merkilegt innslag hjá hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur um Húsavíkurflugvöll. Nú er verið að ráðast í mikla atvinnuuppbyggingu á norðausturhorninu og ég hef fulla trú á að flugvöllur við Húsavík muni nýtast vel í kringum þá eflingu byggðar sem ríkisstjórnin stefnir að með álveri við Húsavík.

En, hæstv. forseti. Ég tek undir það með hv. málshefjanda að það er mjög mikilvægt að huga að lengingu Akureyrarflugvallar. Flugvöllurinn hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki í að efla ferðaþjónustu á Norðurlandi og hefur eflt Akureyri sem byggðakjarna. Ég legg mikla áherslu á að menn greini með skjótum hætti kosti þess að lengja Akureyrarflugvöll. Ég efa ekki að slík könnun mun leiða í ljós að um mjög mikilvægt mál sé að ræða fyrir Akureyringa og fyrir atvinnulíf og ferðaþjónustu á Norðurlandi.