132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Lenging flugbrautarinnar á Akureyri.

519. mál
[13:18]
Hlusta

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra svörin og þingmönnum sem hér hafa talað. Ég tek undir það að í þessari samgönguáætlun sem við erum að ljúka núna, þessi sem var 2002–2005, var gert ráð fyrir þessari úttekt og þess vegna spyr ég eins og fleiri hvenær niðurstaðna megi vænta? Þetta er eitthvað sem á að vera búið að gera.

Ég tek reyndar undir hugsjónir ráðherra um öflugt innanlandsflug. Ég tel líka að Akureyrarflugvöllur sé mjög mikilvægur varðandi allt millilandaflug. Hann hefur verið að eflast sem slíkur en honum eru þröngar skorður settar vegna lengdar. Hann þjónar náttúrlega sem varaflugvöllur líka.

En ég velti því samt fyrir mér í sambandi við það sem talað var um hér áðan, þar sem talað var um að KEA vildi leggja peninga í lengingu flugbrautarinnar, hvort viðræður hafi einhvern tímann átt sér stað? Því þeir segja hér, eins og ég sagði áðan, að þeir ætli að hafa samband. Það er þá hægt að ýta á KEA hafi þeir ekki gert það. Við viljum gera allt til að flýta þessu af því að þetta hefur gríðarlega mikil áhrif á ferðaþjónustuna. Þetta er ekki bara fyrir Akureyringa sem slíka heldur allt Norðurlandið. Þannig að það er mjög nauðsynlegt að þetta verði að veruleika hið fyrsta.

Ég spyr hvort því megi treysta að þetta fari inn á næstu samgönguáætlun sem leggja á fyrir á þinginu í haust?