132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Gildistími ökuskírteina.

548. mál
[13:29]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör við fyrirspurn minni og fagna því að hann hyggst láta fara fram athugun á því hvort rétt sé að skoða þessi ákvæði í 48. gr. sem snúa eingöngu að aldri manna varðandi gildistíma ökuskírteina.

Ég er sammála hæstv. ráðherra, og lýsti því í fyrri ræðu minni hér, að aldur getur ekki einn og sér verið ástæða til að einhverjar ákveðnar og strangari reglur gildi en almennt um aðra sem hafa réttindi til að stýra vélknúnum ökutækjum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í þessar greinar sem ég fór aðeins yfir hér áðan eins og varðandi heilbrigðisskilyrðin. Það eru lágmarksskilyrði sem þarf að uppfylla til að geta stjórnað ökutæki og það eru víðtækar heimildir í þessari reglugerð, bæði fyrir lögreglu og aðra, til að grípa inn í ef skírteinishafi er ekki hæfur til að stjórna bifreið.

Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort í þessari skoðun sem fram fer verði athugað hvort þau ákvæði sem lúta að hæfi ökumanna séu ekki nægilega skýr og ströng til að þau geti gilt ein og sér. Í öðrum viðauka um lágmarkskröfur um líkamlegt og andlegt hæfi til að stjórna vélknúnu ökutæki eru, eins og ég sagði áðan, gerðar lágmarkskröfur varðandi sjón, heyrn og hreyfihömlun og sérstakur kafli er um hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki, taugasjúkdóma, geðtruflanir o.s.frv.

Þannig að það er afskaplega skýrt kveðið á um ýmsa sjúkdóma sem geta haft áhrif á hvort menn hafa gilt ökuskírteini eða ekki, þar með talið hrörnunarsjúkdóma.