132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:43]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Með tilliti til samkeppnisstöðu Íslands og annarra nágrannaþjóða sem við viljum bera okkur saman við er mjög nauðsynlegt að halda áfram að styðja við og stuðla að háskólanámi hér á landi. Vil ég sérstaklega nefna Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri sem hafa átt í verulegum rekstrarerfiðleikum og erfiðleikum við að taka móti þeim fjölda nemenda sem hafa streymt til skólanna en það er hluti af þeirri þróun sem er að gerast hér á landi sem og annars staðar. Ef við ætlum að halda í við aðrar þjóðir og vera samkeppnishæf verðum við að efla menntun þjóðarinnar.

Háskólinn á Akureyri er sérstaklega mikilvægur fyrir aukna menntun í hinum dreifðu byggðum þar sem fjarkennsla hefur verið öflug og í raun er sá skóli flaggskipið okkar á því sviði. Því er mikilvægt að námsframboðið sé fjölbreytt. Kennsla er dýrari í fámennari bekkjum en það verður að vera fjölbreytt námsframboð til að geta fyllt þá þörf sem er úti um allt land á aukinni menntun.