132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:46]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Svar hæstv. menntamálaráðherra undirstrikar einfaldlega að framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar í menntamálum er engin. Hún er í molum og það varðar sérstaklega háskólana. Það er sérstaklega Háskólinn á Akureyri sem hefur orðið illa úti í viðureigninni við ríkisvaldið.

Eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni lá fjárþörfin fyrir í haust og þeim tillögum sem hér komu fram til þess að ráða bót á vandanum var einfaldlega hafnað. Hæstv. menntamálaráðherra segir aftur og aftur í hátíðaræðum sem hún heldur á tyllidögum að það sé markmið Sjálfstæðisflokksins að fjölga þeim sem fara í háskólanám, fjölga hlutfalli sérhvers árgangs sem fer í gegnum háskólana. En síðan eru það hæstv. menntamálaráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn sem koma í veg fyrir að Háskólinn á Akureyri geti tekið við því fólki sem vill koma þangað.

Háskólanum hefur gengið vel, hann hefur sýnt frumkvæði og það er þess vegna sem fólk sækir í þangað, en hann er því miður hornreka hjá hæstv. menntamálaráðherra sem notar bara plástursaðferðina (Forseti hringir.) vetur eftir vetur.