132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:47]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Háskólinn á Akureyri hefur unnið mikilvægt frumkvöðlastarf á sviði fjarkennslu sem ekki hefur verið metið til fulls við þann skóla og það er í raun og veru mjög sorglegt hversu lítið hefur verið komið til móts við skólann varðandi kostnað sem af því hlýst. Sú starfsemi, fjarkennslan, sem er í raun ein örfárra raunhæfra leiða til þess að breyta þeim mikla halla sem er á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis í menntunarmálum, hefur ekki verið metin. Auk þess sem háskólarnir hafa borið mikinn kostnað af fjarkennslunni þá hefur miklum kostnaði líka verið velt á símenntunarmiðstöðvarnar sem flestallar glíma við mikinn halla af þeim sökum. Þessi tvö málefni verður að taka til skoðunar og framlag Háskólans á Akureyri til menntunar (Forseti hringir.) verður að meta að verðleikum.