132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:49]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er afskaplega gleðilegt að verða vitni að því hve margir sækja í háskólanám. Háskólanám undanfarin ár hefur aukist miklu meira en nokkur hafði gert sér í hugarlund eða gat gert sér vonir um að mundi gerast. Fjölgun milli áranna 2001 og 2004 var 11% og Háskólinn á Akureyri hefur svo sannarlega sannað gildi sitt og eins og kom fram hjá hv. þm. Birki J. Jónssyni er ríkisvaldið nú að koma til móts við Háskólann á Akureyri með 60 millj. kr. framlagi. Skólinn er afskaplega mikilvægur fyrir Akureyri, fyrir Norðurland og fyrir landið allt vegna þess að Háskólinn á Akureyri sinnir fjarnáminu og fjarnemar eru alls staðar að á landinu. En það er afskaplega gleðilegt hversu margir stunda háskólanám.