132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:53]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég ákvað að koma hérna upp þegar ég heyrði athugasemd hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar þar sem hann hélt því fram að á þessu ári komi auknir fjármunir til Háskólans á Akureyri. Það er vissulega rétt að það er einhver krónutöluaukning en hún er ekki umfram nemendafjölgun og hún nægir ekki einu sinni fyrir allri þeirri nemendafjölgun sem blasir við Háskólanum á Akureyri. Slíkar fullyrðingar eru því ekki réttar og eru mjög sérkennilegar að heyra, sérstaklega þegar við vitum að það er verið að draga saman námsframboð í Háskólanum á Akureyri, nemendur, kennarar og stjórnendur skólans hafa lýst því yfir að þeir séu í vandræðum. Þeir þurfa á auknum fjármunum að halda og við því á að bregðast en ekki halda hér endalausar fagurgalaræður um að þarna sé allt í blóma.

Við eigum að taka á málinu í eitt skipti fyrir öll og til þess þarf líka að huga að fjarnámi um landið allt, fræðslumiðstöðvarnar eru tengdar Háskólanum á Akureyri og hluti af undirstöðum skólans. (Forseti hringir.) Þær eru illa staddar og að því þarf að huga líka.