132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum Háskólans á Akureyri.

317. mál
[13:54]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur við að ég þurfi ekki að koma hér í ræðustól eftir ágæta ræðu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur um Háskólann á Akureyri. Ég get tekið undir allt sem hefur verið sagt.

Ég heyrði að einn stjórnarþingmaður sagði hér að ríkisstjórnin væri að koma til móts við Háskólann á Akureyri með 60 milljónum, eins og þetta væri eitthvað borið fram á tertufati, þetta væri eitthvað svakalega, svakalega gott, ég hafði nú ekki hugsað mér þetta þannig.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir það sem gert er og ég vil vona að þetta dugi til þess að bæta fjárhagsstöðu Háskólans á Akureyri. Um það höfum við oft rætt, bæði ég og hæstv. menntamálaráðherra, hér í ræðustóli og annars staðar. Ég fagna því sem gert hefur verið og endurtek að ég vona að það dugi. En ég vil halda því til haga að 80 milljónir var talið að vantaði vegna leigu háskólans á rannsóknarhúsinu. Svo var kennslusamningurinn og þannig var talan hærri. Nú koma 60 milljónir til þess að bjarga þessu. Síðast var háskólanum bjargað með því að leyfa skólanum að selja eina fasteign sína. (Forseti hringir.) Og ég tek það fram enn einu sinni, virðulegi forseti, vonandi dugar þetta til. (Forseti hringir.) En ég óttast samt að svo sé ekki.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. ræðumann að virða ræðutíma.)