132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.

531. mál
[14:03]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Framkvæmd laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum er annars vegar á hendi Kvikmyndaskoðunar, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, og hins vegar barnaverndarnefnda og lögreglu. Kvikmyndaskoðun skoðar og úrskurðar um allt efni sem til hennar berst eða hún er beðin um að skoða en barnaverndarnefndir og löggæslumenn skulu síðan hafa reglubundið eftirlit með því að úrskurðum Kvikmyndaskoðunar sé framfylgt. Framleiðendur, innflytjendur og dreifingaraðilar eiga að láta Kvikmyndaskoðun skoða allt efni sem ætlað er til almennra sýninga eða notkunar. Brot gegn lögunum varða sektum eða fangelsi og um rannsókn og meðferð fer að hætti laga um opinber mál.

Í stuttu máli má segja, frú forseti, að lögin hafa ekki reynst nægilega vel og af þeim sökum hef ég lagt fram frumvarp til nýrra laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum og ég kem að því hér á eftir en ég vonast til þess að það verði lagt fram núna innan fáeinna daga. Það er búið að samþykkja í þingflokkum beggja ríkisstjórnarflokka.

Um aðra liði fyrirspurnarinnar er rétt að taka fram, eins og ég gat um áðan, að í lögunum er gert ráð fyrir því að barnaverndarnefndir og löggæslumenn skuli hafa reglubundið eftirlit með því að úrskurðum Kvikmyndaskoðunar sé framfylgt. Kvikmyndaskoðun hefur reynt að afla upplýsinga frá þessum aðilum um hvernig eftirliti þeirra sé háttað en í ljós hefur komið að þær liggja ekki fyrir nema að mjög takmörkuðu leyti. Til að gefa tæmandi svar við þeim spurningum sem liggja fyrir þyrfti að fá upplýsingar frá öllum barnaverndarnefndum og lögregluembættum landsins. Hið sama gildir um spurninguna um hve oft banni Kvikmyndaskoðunar hefur ekki verið framfylgt sl. tvö ár. Það liggur fyrir að lögregla hefur stöðvað sýningar en ekki hafa verið teknar saman tölulegar upplýsingar um fjölda slíkra tilvika.

Síðan er spurt:

„Hvaða fjármagni er varið í eftirlit með framkvæmd laganna og er það fullnægjandi að mati þeirra sem eiga að framfylgja þeim?“

Í gildandi lögum er framleiðendum og innflytjendum kvikmynda og annars efnis sem lögin taka til gert að greiða skoðunargjöld og var þeim ætlað að standa undir kostnaði við kvikmyndaskoðun. Sú hefur þó ekki verið raunin og hefur ríkissjóður greitt með starfseminni og nemur sú fjárhæð á yfirstandandi ári 2,4 millj. kr. Í þessu sambandi er rétt að geta þess að í kostnaðaráætlun með frumvarpi til laga um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum sem ég mun leggja fram er gert ráð fyrir 5 millj. kr. árlegu framlagi til að standa straum af kostnaði við virkt eftirlit með því að lögunum verði framfylgt.

Það er rétt að geta þess að í 76. gr. stjórnarskrárinnar segir að börnum skuli tryggja í lögum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ég lít því svo á að rétt sé að löggjafinn hafi afskipti af sýningu, sölu og dreifingu kvikmynda og tölvuleikja til að tryggja velferð barna. Framkvæmd gildandi laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum hefur á sumum sviðum reynst afar erfið vegna tæknibreytinga undanfarinna ára, ekki síst í sjónvarpstækni og með tilkomu veraldarvefsins. Ný miðlunartækni hefur í reynd gert það sífellt erfiðara að hafa stjórn á því hvaða kvikmynda- og tölvuleikjaefni fólk notar eða horfir á. Því hefur aukist ábyrgð foreldra og annarra forsjáraðila á því hvaða kvikmynda- eða tölvuleikjaefni börn þeirra horfa á eða nota enda má segja að þessir aðilar séu í reynd þeir einu sem hafi einhver tök á að stjórna áhorfi og notkun barna sinna á þessu efni.

Hlutverk löggjafans og annarra handhafa ríkisvaldsins er hins vegar að tryggja börnum þá vernd sem velferð þeirra krefst með því að mæla fyrir um skoðun og aldursflokkun kvikmyndaefnis og tölvuleikja með tilliti til skaðlegra áhrifa slíks efnis og sjá til þess að framfylgt sé reglum um sölu og aðra dreifingu til barna undir lögræðisaldri. Telja verður að löggjafinn og framkvæmdarvaldið geti með slíkum reglum og eftirliti stutt við uppeldishlutverk foreldra í þeim anda sem má segja að komi fram í 76. gr. stjórnarskrárinnar.

Mig langar rétt til þess að tæpa á, frú forseti, meginatriðum frumvarpsins sem ég mun leggja fram. Þar kemur m.a. fram að:

1. Skylt verði að meta eða láta meta allar kvikmyndir og tölvuleiki sem ætlaðir eru til sýningar eða notkunar fyrir börn undir lögræðisaldri.

2. Skylt verði að láta þess getið alls staðar ef efni telst vera ofbeldiskvikmynd eða -tölvuleikur eða ef það ógnar velferð barna.

3. Skylt verði að merkja greinilega kvikmyndir og tölvuleiki og umbúðir þeirra um matsniðurstöðu og það hvort mynd eða leikur er aðeins ætlaður til sýningar eða notkunar fyrir fullorðna einstaklinga.

4. Skylt verði að geta um mat kvikmynda eða tölvuleikja í auglýsingum og í öðrum kynningum á þeim.

5. Skylt verði að hafa eftirlit með því að aðgangur að sýningum og afhending á kvikmyndum eða tölvuleikjum sé fyrir hendi.

Frumvarpið kveður einnig á um að ábyrgðaraðilar skuli setja sér verklagsreglur um framkvæmd mats sem styðjist síðan við alþjóðlega viðurkennd skoðunarkerfi og þessar reglur á að birta opinberlega og tilgreina matstjóra ábyrgðaraðila. Niðurstöður matsins skulu síðan birtar opinberlega og þeim viðhaldið í gagnagrunni sem almenningur hefur aðgang að. Ég vil einnig geta þess að Barnaverndarstofu verður ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd mats á sýningarhæfni kvikmynda og tölvuleikja og í því felst m.a. heimild til að láta fara fram úttekt á verklagi framangreindra ábyrgðaraðila og ýmislegt fleira má tiltaka (Forseti hringir.) úr því frumvarpi sem við vonandi ræðum fyrr en síðar hér á hinu háa Alþingi.