132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum.

531. mál
[14:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svörin og ég hef alveg fullan skilning á því að hæstv. ráðherra hafi ekki getað svarað öllum þeim töluliðum sem ég lagði hérna fram. Það staðfestir auðvitað það sem ég sagði að það hefur verið brotalöm á framkvæmdinni þegar ekki er hægt t.d. að upplýsa um hve oft banni Kvikmyndaskoðunar hafi ekki verið framfylgt, það sýnir brotalömina og nauðsyn þess að taka upp þessi lög og endurskoða. Ég fagna því sérstaklega sem ráðherra upplýsti hér að þessi lög verði felld úr gildi, ef ég skil hæstv. ráðherra rétt, þ.e. lögin um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, og í staðinn komi ný lög um eftirlit með aðgengi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, sem ég held að sé afar brýnt í ljósi þeirrar nýju miðlunartækni sem hefur komið hér fram frá því að þessi lög voru sett. Ég held að lögin út af fyrir sig um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum að því er varðar eftirlitið, að lagatextinn sé í sjálfu sér nægilega skýr eins og 3. gr. lagatextans, en það er fyrst og fremst framkvæmdin sem hefur verið í skötulíki og mikil brotalöm á. Því er mikilvægt að í þessu nýja frumvarpi ráðherrans sé skýrt kveðið á um hvernig eigi að framfylgja þessu eftirliti til þess að velferð barna og unglinga sé tryggð og að fyrirmælum eftirlitsaðila sé framfylgt og það er auðvitað aðalatriðið.

Ég vænti þess að þetta frumvarp ráðherrans komi hér fram á næstu dögum og kveð auðvitað ekki upp um stuðning við það fyrr en frumvarpið hefur verið lagt fram en ég ítreka þakkir mínar til ráðherrans um að endurskoða eigi þessi lög og ný að taka við sem geri þá auðveldara að sinna eftirlitinu.