132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Háskóli Íslands.

578. mál
[14:12]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrr í vetur velti hæstv. menntamálaráðherra því upp við rektor Háskóla Íslands hvað þyrfti til að Háskóli Íslands kæmist í hóp 100 bestu háskóla í heimi. Nú eru til nokkrar tegundir af mælikvörðum á það, það er svokallaður Shanghai-listi og það er Times Higher Supplement listinn og ýmsir listar sem þar um ræðir, en mælikvarðarnir eru yfirleitt þeir sömu. Þessi hugmynd hefur vakið mikla athygli hjá rektor Háskóla Íslands og hæstv. menntamálaráðherra og sérstaklega í ljósi þeirrar stöðu sem Háskóli Íslands er í.

Niðurstaðan af málþingi um samkeppnishæfi opinberu háskólanna í gær var einföld og afdráttarlaus. Hún var sú að ríkisháskólarnir eiga á hættu að verða annars flokks skólar. Þetta stingur í stúf við það háleita og glæsilega markmið forustumanna Háskóla Íslands um að koma honum í hóp 100 bestu háskóla. Þess vegna beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hvernig hyggst ráðherra vinna að því að skólinn nái þessu marki?

2. Hefur verið gerð áætlun um slíkt, og ef svo er, hver er hún?

3. Fylgja þessu markmiði auknar fjárveitingar til skólans eða heimild til aukinnar gjaldtöku?

Auk þess hefur komið fram í máli rektors Háskóla Íslands að til að skólinn eigi einhverja möguleika á að ná þessu markmiði þurfi hann að fimmfalda útskrifaða doktorsnema, hann þarf að auka tekjur sínar um tæpa fimm milljarða á ári, ná því marki á fimm árum með því að auka tekjur sínar um 600–700 milljónir á ári, bæði til að vinna upp uppsafnaðan halla og til að ná í áttina að þessu markmiði.

Þá kom einnig fram á málþinginu að framlög til háskólastigsins á Íslandi úr opinberum sjóðum eru u.þ.b. 1% af vergri landsframleiðslu á meðan þau eru 1,8–1,9% á hinum norrænu löndunum. Þetta kom skýrt fram í áliti og framsögn manna á málþinginu í gær. Háskóli Íslands er því ákaflega langt frá því að ná þessu markmiði en hann gæti örugglega náð því ef ekki strandaði á stjórnvöldum. Viljaskortur stjórnvalda til að byggja undir skólann og gera honum kleift að blómstra hefur í rauninni komið í veg fyrir að skólinn nái að springa út, staðan er nöturleg en gagnlegt að skoða hana í ljósi áðurnefndra markmiða.

Þá sagði forstöðumaður Stofnunar stjórnsýslufræða Háskólans í gær á þinginu, með leyfi forseta:

„Þá væri það vandi að huglaus stjórnvöld vörpuðu pólitískri ábyrgð á stjórnendur HÍ, bæði í skólagjaldamálum og hvað varðaði aðgangstakmarkanir.“

Allt ber því að sama brunni. Skólinn býr við mjög þröngan fjárhagslegan kost. Hann er óralangt frá að ná því markmiði sem fram hefur verið sett um að komast í hóp úrvalssveitar hinna 100 bestu háskóla en óskandi væri að skólanum væri gert kleift að ná því. Þess vegna hlýtur að vakna sú spurning hvort vænta megi stefnubreytingar í áherslum stjórnvalda þegar um er ræða það mikla fjárfestingarátak sem þarf að ráðast í til að Háskóla Íslands verði gert þetta kleift og ber að muna að hæstv. menntamálaráðherra vakti (Forseti hringir.) fyrst máls á þessari hugmynd og hún hlýtur að ætla að fylgja henni eftir.