132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Háskóli Íslands.

578. mál
[14:21]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætlaði að taka undir það sem komið hefur fram hjá öðrum hv. þingmönnum að það markmið Háskóla Íslands að skipa sér sess meðal 100 bestu háskóla í heimi er metnaðarfullt. Það er markmið sem ég styð eindregið.

Af því að hv. þingmaður kallaði eftir svörum frá hæstv. ráðherra um hvað íslensk stjórnvöld ætluðu að gera til að auðvelda háskólanum að ná þessu markmiði sínu, finnst mér rétt að það komi fram í umræðunni að frumvarp til laga um háskóla frá hæstv. menntamálaráðherra er núna til umfjöllunar. Það kom fram hjá Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, á fundi menntamálanefndar að hún teldi að það frumvarp væri mjög ánægjulegt og merkilegt skref fyrir háskólann til að ná þessu markmiði sínu. (Forseti hringir.) Það sem mig langar að fá fram í þessari umræðu (Forseti hringir.) er svar við þeirri spurningu (Forseti hringir.) hvað hv. þingmaður vill gera í málinu vegna þess að það skortir.

(Forseti (JóhS): Enn og aftur skal það ítrekað að óskað er eftir því að þingmenn haldi sig innan tiltekins ræðutíma.)