132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Háskóli Íslands.

578. mál
[14:29]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að það fer mjög fyrir brjóstið á hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, sérstaklega, að ég skuli hafa leyft mér að hafa þá hugmynd og hugsjónastefnu að við eigum háskóla hér á landi sem verði hugsanlega í fremstu röð eftir 10–12 ár, að ég leyfi mér að setja fram slíka hugmynd. Mér finnst það frekar lýsa metnaðarleysi í hugmyndafræði Samfylkingarinnar að menntamálaráðherra landsins geti ekki lagt fram slíka spurningu og haft slíka hugsjón. Mér finnst ósköp dapurlegt að það skuli í rauninni vera leifarnar af þessari umræðu hér í dag.

Að sjálfsögðu mun ég styðja Háskóla Íslands í þeirri viðleitni sinni að verða háskóli í fremstu röð. (Gripið fram í: Hefurðu engin svör við þessu?) En það verður hins vegar ekki gert með þeim hætti að slengja fram einhverjum tölum eins og hv. þingmenn hafa gert. (Gripið fram í.) Frú forseti. Ég hef þegar sagt og margítrekað að ... (Gripið fram í.) Er hv. þingmaður búinn?

(Forseti (JóhS): Það er mikilvægt að hv. þingmenn gefi hæstv. ráðherra tíma til að svara fyrirspurninni.)

Þessi óróleiki er nú bara ánægjulegur. Ég held að hann sé vísbending um að það fari í taugarnar á hv. þingmönnum að standa frammi fyrir því að við séum að ræða háskólamál sem snerta Háskóla Íslands, og að ég skuli hafa leyft mér að setja fram þá hugmynd og þá stefnu að Háskóli Íslands verði í fremstu röð eftir 10–12 ár. Það fer í taugarnar á hv. þingmönnum.

Við höfum aukið framlög til háskólastigsins svo um munar á síðastliðnum árum. Nýjustu tölur munu sýna það, m.a. frá Hagstofunni. Það ætlum við að sjálfsögðu að gera áfram. Við ætlum að stórefla framlög til háskólastigsins. Það munum við gera. Það hefur komið fram í stefnu vísinda- og tækniráðs að við ætlum að efla rannsóknarsjóðina. Það er mín stefna að reyna að koma fram breytingum á Rannsóknarnámssjóði, sem gerir hvað? Hann gerir ekkert annað en að styrkja doktorsnema í háskólunum og þá ekki síst Háskóla Íslands. Það er hluti af þeirri stefnu sem stuðlar að því að við getum (Forseti hringir.) byggt upp háskóla sem er í fremstu röð meðal háskóla í heiminum. (Gripið fram í.) Ég vona að hv. þingmenn hætti nú að vera svona truntulegir og fari frekar með mér í það verkefni að stuðla að því að við Íslendingar (Forseti hringir.) eigum hér háskóla í fremstu röð.

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hæstv. menntamálaráðherra að gæta orða sinna.)