132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Mat á listnámi.

592. mál
[14:32]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um mat á listnámi og spurningin er svohljóðandi:

„Hvernig meta yfirvöld menntamála nám þeirra listamanna sem luku burtfararprófi úr gömlu sérskólunum, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Leiklistarskóla Íslands, nú eftir að Listaháskóli Íslands hefur tekið við menntun myndlistarmanna og leikara?“

Eins og kunnugt er þá er Listaháskóli Íslands sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt lögum nr. 43/1995, um listmenntun á háskólastigi, og samkvæmt skipulagsskrá hans sem staðfest var af menntamálaráðuneytinu þann 21. september 1998, þá er það hlutverk skólans að sinna æðri menntun á sviði listgreina, vinna að eflingu listmennta með þjóðinni og miðla fræðslu um listir og menningu til almennings. Skólinn fékk starfsleyfi í maí 1999, fyrsta skólasetningin var í september 1999 og hefur skólinn starfað síðan þá.

Þessi skóli byggir á gömlum grunni. Gömlu sérskólarnir Leiklistarskóli Íslands og Myndlista- og handíðaskóli Íslands eru grunnur þessa skóla, grunnurinn sem skólinn byggir á. Þegar við sem stundum nám í þessum skólum vorum að útskrifast var okkur sagt að nám okkar væri nám á háskólastigi. En nú virðist það vera orðið einhverjum vandkvæðum bundið fyrir það fólk sem útskrifast hefur úr þessum sérskólum að fá formlega viðurkenningu á því að gamla námið sé a.m.k. BA-gráða, að ekki sé talað um MFA-gráða sem það kannski ætti að vera þar sem námið var fjögur ár.

Ég tel að það hljóti að verða að taka aðeins til í þessum málum því að nýverið gekk Leikarafélag Íslands, sem er nýtt félag leikara við Þjóðleikhúsið, var áður deild í Félagi íslenskra leikara, inn í BHM á þeim forsendum að nú væri öll nýliðun í stéttinni með háskólapróf. Það er auðvitað von Félags íslenskra leikara í náinni framtíð að aðrar deildir Félags íslenskra leikara muni fylgja í kjölfar Þjóðleikhúsleikaranna og ganga til liðs við BHM.

Ég geri ráð fyrir að hæstv. menntamálaráðherra hafi fengið inn á sitt borð einhverjar vangaveltur frá því fólki sem í hlut á í þessum efnum og tel þess vegna að það sé sjálfsagt og einboðið að hér sé borin upp spurning af þessu tagi, þ.e. á hvern hátt þetta fólk sem útskrifað er úr gömlu sérskólunum er metið í hinu opinbera kerfi og hvernig því fólki er gert kleift að sækja um framhaldsnám í háskólum á erlendri grund.