132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Mat á listnámi.

592. mál
[14:35]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. og fyrirspyrjanda, Kolbrúnar Halldórsdóttur þá var Listaháskóli Íslands settur formlega á fót árið 1998 með Leiklistarskólanum og fleiri skólum sem síðan urðu að Listaháskólanum. Hann byggði í fyrstu starfsemi sína á grunni gamla Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðan, eins og hv. fyrirspyrjandi kom ágætlega inn á og fór yfir tók hann yfir starfsemi Leiklistarskólans og frá þeim tíma útskrifaði Listaháskólinn nemendur með viðurkenndar prófgráður á listasviði á þessum fræðasviðum, annars vegar BA-gráðu í myndlist og svokallaða BFA-gráðu í leiklist.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þingmanns finnst mér vert að það komi fram í upphafi að menntamálaráðuneytið metur ekki sérstaklega nám listamanna sem luku burtfararprófi úr gömlu sérskólunum. Sú menntun sem þessir skólar veittu hefur hingað til algjörlega staðið fyrir sínu. Hins vegar hafa ráðuneytinu í gegnum tíðina borist erindi frá nemendum þessara gömlu sérskóla um hvert sé mat á námi þeirra eftir að Listaháskólinn tók til starfa. Í flestum tilfellum hefur verið um að ræða nemendur sem hyggjast fara erlendis í nám eða stunda viðbótarnám hér á landi. Menntamálaráðuneytið hefur ætíð tekið málaleitan þessara nemenda mjög vel og gert allt til þess að greiða götu þeirra. Hafi nemendur óskað eftir því hefur ráðuneytið skrifað bréf þar sem skýrt er hver staða þessara skóla hafi verið á háskólastiginu á sínum tíma og að þriggja eða fjögra ára nám í þessum sérskólum jafngildi að lengd og einingum BA- eða BFA-prófi. Slík yfirlýsing eða staðfesting hefur dugað þessum nemendum til áframhaldandi náms bæði innan lands og erlendis fram til þessa og ég efast ekki um að það muni vera framvegis þannig. Við tökum náttúrlega ávallt vel á móti svona beiðnum og reynum að greiða götu þeirra nemenda sem vilja halda áfram námi sem að sjálfsögðu er fagnaðarefni. Ég vona að þetta svar mitt sé þá til þess að uppfylla fyrirspurn hv. þingmanns.