132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Jarðskjálftaupplýsingar í Ríkisútvarpinu.

603. mál
[14:39]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um jarðskjálftaupplýsingar í Ríkisútvarpinu. Tilefnið er að mánudaginn 6. mars, rétt fyrir klukkan hálfþrjú, reið yfir allsnarpur jarðskjálfti, rétt tæp fimm á Richter sem átti upptök sín við Krísuvík skammt sunnan Hafnarfjarðar. Þessi jarðskjálfti fannst mjög vel víða um land, ekki síst hér við Faxaflóa en líka austur fyrir Fjall, austur í sveitir, allt austur á Hvolsvöll og að sjálfsögðu um Reykjanes.

Ég var sjálfur staddur á skrifstofu minni þegar þessi ósköp dundu yfir og fyrstu viðbrögð mín voru að leita eftir upplýsingum um það hvað hefði gerst. Það er alltaf þannig, virðulegi forseti, þegar svona hlutir eiga sér stað þá reynir maður nú yfirleitt fyrst að átta sig á því hvað er á ferðinni. Ég upplifði þetta þannig eins og það hefði hugsanlega orðið eitthvert stórslys hér í miðborg Reykjavíkur, mikil sprenging, flugslys eða eitthvað þess háttar eða þá jarðskjálfti. Ég fór á Ríkisútvarpið eins og manni hefur verið kennt frá því í barnæsku til að leita eftir fréttum þar og taldi víst að þar væri fréttir að finna. Ég reyndi líka á netinu, netsamband lá meira og minna niðri, sennilega vegna þess að það voru fleiri en ég að leita að upplýsingum. Ég kveikti líka á sjónvarpinu en þar var bara stillimynd. Ég heyrði sem sagt ekkert á Rás 1 í Ríkisútvarpinu, ég sá ekkert um þetta í sjónvarpinu hvað hér hefði hugsanlega verið á ferðinni, netið lá nánast niðri.

Síðar fékk ég að vita að þetta hafi verið jarðskjálfti en það var eingöngu gert á Rás 2 Ríkisútvarpsins að því er ég best veit. Það var ekki fyrr en sennilega kortér fyrir þrjú að ég fann fyrstu fréttir um hvað gerst hafði og það var þá á fréttastöðinni NFS sem hafði þá farið í loftið með útsendingu þar sem fréttamaður og síðan veðurfræðingur, sem ég held að sé líka menntaður jarðfræðingur, sögðu almenningi frá því að þetta hefði verið jarðskjálfti.

Ég kem hér til að spyrja hæstv. ráðherra um tímasetningar, af því að hæstv. menntamálaráðherra ber jú ábyrgð á Ríkisútvarpinu:

1. Klukkan hvað var fyrst upplýst um jarðskjálftann sem átti upptök sín við Krísuvík 6. mars sl., á Rás 2 Ríkisútvarpsins?

2. Klukkan hvað voru fyrstu upplýsingar um skjálftann settar á vefsíðu Ríkisútvarpsins og á textavarp þess?

3. Klukkan hvað var fyrst tilkynnt um skjálftann í sjónvarpsútsendingu Ríkisútvarpsins og þá með hvaða hætti?

4. Og síðast en ekki síst hvenær og klukkan hvað voru fyrstu fréttir eða (Forseti hringir.) upplýsingar um þennan jarðskjálfta á Rás 1?