132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Kvennaskólinn á Blönduósi.

605. mál
[14:49]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um málefni húss Kvennaskólans á Blönduósi:

1. Hvaða áætlanir hefur ráðherra um framkvæmd mjög svo brýnna endurbóta og viðgerða á hinu fallega og fornfræga húsi Kvennaskólans á Blönduósi sem er að 2/3 í eigu ríkisins og liggur undir skemmdum?

2. Hefur ráðherra hugleitt hvernig stjórnvöld geti komið að því með beinum hætti ásamt heimaaðilum að finna Kvennaskólahúsinu verðugt hlutverk sem nýtt geti hin miklu húsakynni og jafnframt haldið sögu þess og reisn á lofti?

Kvennaskóli Húnvetninga rekur sögu sína aftur til árdaganna á Undirfelli í Vatnsdal 1879 en það hús sem hér um ræðir og stendur reisulegt á bökkum Blöndu var byggt að meginhluta á árunum 1911–1912. Það er teiknað af Einari Erlendssyni, byggingameistara í Reykjavík, í samráði við Jón Þorláksson, þáverandi landsverkfræðing. Húsið er tvær hæðir, kjallari og ris. Byggt hefur verið við húsið nokkrum sinnum á tímabilinu.

Kvennaskólahúsið fellur að nokkru undir húsfriðunarlög sem slíkt og einnig lúta verk Einars Erlendssonar vissum friðunarákvæðum í samráði við húsfriðunarnefnd. Meðan reglubundið skólahald var í húsinu var því jafnan vel við haldið og allt fram til ársins 1974 var það viðhald gott. Það var fastur liður á vorin eftir að skólahaldi lauk að gera við það sem þurfti og gera þær endurbætur sem þurfti.

Eins og áður sagði lagðist skólahald af 1979 og frá 1980 var fyrst Fræðsluskrifstofa Norðurlands vestra þar til húsa og seinna skólaskrifstofa. Textílsetur Íslands hefur nú aðsetur í húsinu og eru vonir bundnar við aukin umsvif á þess vegum. Þá er og hið stórmerka heimilisiðnaðarsafn á Blönduósi í nýjum húsakynnum við hlið Kvennaskólans.

Í viðtali við Morgunblaðið 23. júlí sl. sumar segir Valgarður Hilmarsson, oddviti á Blönduósi, að viðræður við menntamálaráðuneytið standi nú yfir um viðhald á húsinu en orðrétt er vitnað til oddvitans:

„Byggingin er farin að láta verulega á sjá. Húsið er illa farið að utan og nauðsynlegt að gera við steypuskemmdir og mála það. Þá þarf einnig þarf að skipta um frárennslisrör og rafmagnslagnir.“

Þetta er mjög hógværlega til orða tekið, frú forseti, því að á ýmsum sviðum er því orðið mjög ábótavant. Á fjárlögum þessa árs er lögð til 1 millj. kr. til úttektar á húsinu og til endurbóta. Gefur augaleið að þessi upphæð er allt of lág til að hægt sé að ráðast í afar brýnar endurbætur á húsinu. Málefni Kvennaskólahússins eru búin að vera til umfjöllunar í fjárlaganefnd og á Alþingi í nokkur ár án þess að úr hafi verið bætt. Þess vegna beini ég fyrrgreindum fyrirspurnum til hæstv. menntamálaráðherra.