132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Kvennaskólinn á Blönduósi.

605. mál
[14:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og hinn hlýja hug til málsins, sem kemur fram hjá öllum hv. ræðumönnum og þar með hæstv. ráðherra, og til húsmæðraskólanna, kvennaskólanna sem störfuðu hér á landi og eiga um aldargamla starfssögu og ríflega það og hafa lagt gríðarlega mikið til menningarlífs og fræðslustarfs í landinu. Þess vegna eigum við ekki að kinoka okkur við að halda þessum merku húsum við, þessum stóru, reisulegu húsum sem setja mikinn svip á byggðarlagið og standa jafnframt vörð um og sýna þá merku og miklu sögu sem þau hafa að geyma.

Það þarf að taka Kvennaskólahúsinu á Blönduósi tak. Það er erfitt að ræða um framtíðarhlutverk þess, það er út af fyrir sig sjálfstætt mál, en ábyrgðin á að halda því við, endurbæta það og gera það nothæft, er alveg óbreytt því það getur ekki verið vilji okkar að þessi hús drabbist fullkomlega niður. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að axla þá ábyrgð, eigendaábyrgð sem er 75% í húsinu, en einnig ábyrgð á sögulegu og menningarlegu hlutverki þess, og beita sér fyrir því að gert verði við húsið þannig að það sé hæft til að hýsa þar starfsemi og koma þá jafnframt að því með heimamönnum að finna því verðug hlutverk sem eru til, þar er nú textílsafn o.fl., en losa (Forseti hringir.) sig ekki undan ábyrgðinni með því að vera að gefa húsið frá sér, heldur axla hana og gera húsið upp.