132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni.

632. mál
[15:15]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að fagna þeim tíðindum sem hæstv. menntamálaráðherra færði okkur hér að fengist hefðu 40 millj. kr. á fjárlögum til að fara í endurbætur á þessu merka húsi. Vonandi verður það til þess að þetta merka hús hafi þá fengið verðuga andlitslyftingu fyrir árið 2008 þegar það verður 80 ára gamalt.

Þetta er afskaplega merkileg bygging með mikla sögu og er á vissan hátt minnisvarði um þann stórhug sem ríkti á þessum árum. Mér finnst að þetta hús ætti að einhverju leyti að tengjast minningu Jónasar Jónssonar frá Hriflu. Hann er að mínu mati einn merkasti stjórnmálamaður okkar Íslendinga á liðinni öld. Mér finnst honum hvergi gert nógu hátt undir höfði í dag. Ég hef verið að kynna mér sögu þessa merka stjórnmálamanns á undanförnum mánuðum og ég hef fyllst mikilli aðdáun þegar ég hef lesið verk hans og kynnt mér störf hans og æviferil.