132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Gamla héraðsskólahúsið á Laugarvatni.

632. mál
[15:18]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hafa fagnað því að nú á að fara að gera upp héraðsskólahúsið á Laugarvatni, gamla skólahúsið. Mér hefur fundist sorglegt að horfa upp á hvað það hefur verið í mikilli niðurníðslu undanfarið. Það er, eins og bent var á, tákn um alþýðumenntun og húsagerðarlist ákveðins tíma og setur svip sinn á Laugarvatn. Og í ljósi þess hve margir ferðamenn fara þarna um er mikilvægt að halda til haga og vernda hús eins og þetta þannig að það geti varpað ljósi á söguna og þá menningu sem blómstraði á Laugarvatni. Ég fagna því eins og aðrir að þarna eigi að gera bragarbót á og laga húsið en það ástand sem hefur verið á því undanfarið hefur eiginlega verið til skammar.