132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Geðheilbrigðisþjónusta barna og unglinga.

[15:52]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Sennilega eru fá mál viðkvæmari og erfiðari úrlausnar en vandi barna og ungmenna með geðraskanir og áhrif veikinda þeirra á nánustu fjölskyldur. Það er þung byrði að glíma við þann harða veruleika þegar barn eða ungmenni í fjölskyldu á við geðrænan vanda að stríða. Oft er slík byrði óbærileg og álagið getur vegið að undirstöðum fjölskyldunnar. Stuðningur samfélagsins við slíkar aðstæður getur skipt sköpum um afdrif viðkomandi barns og fjölskyldunnar sem heild.

Á síðustu árum hefur verið lögð mikil áhersla á að mæta vaxandi þörf og eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni, eins og hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra gerði grein fyrir áðan. Þjónusta við geðfötluð börn og ungmenni er veitt af heilbrigðis- og meðferðarstofnunum, hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingum, á heimilum, í skólum, innan félagsmálakerfisins, svo fátt eitt sé nefnt. Málefni þeirra falla því undir mörg ráðuneyti og koma til kasta fjölmargra aðila.

Ég tel að öllum sé ljóst að aukin samhæfing í þjónustu við geðfötluð börn er stærsta viðfangsefnið fram undan. Foreldrar upplifa sig oft eins og þeir séu að berjast við marghöfða þurs þegar þeir eru að leita úrræða fyrir börn sín. Hér er því verk að vinna.

Í skýrslu nefndar sem gefin var út af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í nóvember 2005 um þessi mál er lagt til að heilsugæslan verði samhæfingaraðili og tengiliður fjölskyldna við meðferðaraðila og stuðningsaðila vegna vanda barna þeirra.

Ég vil leggja áherslu á að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Skólaskylda barna er til sextán ára aldurs. Skólaheilsugæslan hefur í auknum mæli komið að málefnum barna og ungmenna með geðraskanir og hefur yfirsýn yfir vanda þeirra. Skólaheilsugæslan er snertiflötur heilbrigðiskerfisins, félagslega kerfisins og menntakerfisins og er þess bær að axla formlega slíka ábyrgð, enda koma þar að fjölmargir fagaðilar sem hafa víðtæka þekkingu á þessum málum, þar með taldir sálfræðingar sem sérstaklega hefur verið rætt um hér í dag.