132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:12]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér kemur til atkvæðagreiðslu frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytjum frávísunartillögu við málið. Við teljum að hér sé enn eitt einkavæðingarfrumvarpið á ferðinni í að einkavæða almannaþjónustuna. Þó að einstakir þingmenn stjórnarliða hafi gefið yfirlýsingar um að ekki standi til að selja Rafmagnsveitur ríkisins þó að þær verði hlutafélagavæddar, hafa aðrir sagt annað.

Það er verið að setja í gang sama ferli hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Landssíminn fór í gegnum. Fyrst var hann hlutafélagavæddur og gefnar hástemmdar yfirlýsingar um að hann yrði aldrei seldur, skömmu seinna var hann settur í söluferli og er nú allur seldur. Ég held að þjóðin vildi heldur hafa átt hann nú.

Frú forseti. Þess vegna flytjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tillögu til rökstuddrar dagskrár sem hljóðar svo:

„Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja áherslu á að raforka til almennra notenda og fyrirtækja sé mikilvægur þáttur almennrar grunnþjónustu sem á að reka á félagslegum grunni. Þau skref sem hafa verið stigin í markaðsvæðingu raforkukerfisins hafa þegar leitt til mikilla hækkana á verði raforku til neytenda víða um land, þvert á gefin loforð um annað.

Hlutafélagavæðing Rariks er liður í yfirlýstum markmiðum stjórnvalda að einkavæða raforkukerfið og búa orku- og dreifingarfyrirtæki landsmanna undir sölu á almennum markaði. Þau áform eru andstæð hagsmunum almennings í landinu.

Með vísan til framanritaðs vísar Alþingi máli þessu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Frú forseti. Verði þessi tillaga ekki samþykkt og frumvarpið komi til atkvæða sem slíkt þá erum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs andvíg þessu frumvarpi og einstökum greinum þess. Við leggjum áherslu á að Rafmagnsveitur ríkisins eru grunnalmannaþjónustufyrirtæki sem á að vera í sameign landsmanna og á ekki að einkavæða.