132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:15]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við samfylkingarmenn afgreiddum þetta mál frá iðnaðarnefnd með fyrirvara. Við höfum áður tekið þátt í því að samþykkja hér að gera fyrirtæki á orkusviði að hlutafélögum og teljum ekki óeðlilegt að þannig sé með slík fyrirtæki farið. Þetta var að vísu nokkuð gallað frumvarp og það eru fimm breytingartillögur við þær tíu greinar sem eru í frumvarpinu sem segir auðvitað sína sögu um það.

Við flytjum auk þess breytingartillögu við frumvarpið þar sem við leggjum til að fjármálaráðherra fari með eignarhaldið í fyrirtækinu. Það kom mjög skýrt fram í umfjöllun í nefndinni að mikil nauðsyn er á því. Fram kom frá þeim aðilum sem eru að vinna í orkugeiranum, t.d. frá fulltrúum Orkuveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja og fleirum að auðvitað er óforsvaranlegt og veldur hagsmunaárekstri að hæstv. iðnaðarráðherra, sem úthlutar réttindum til rannsókna og nýtingar á orkulindum, velji á milli þeirra fyrirtækja sem undir hana eru sett með þeim hætti sem þarna er, þ.e. sem yfirmaður Rariks, Landsvirkjunar og Orkubús Vestfjarða velur hún á milli þeirra fyrirtækja og annarra fyrirtækja sem eru í samkeppninni á þessu sviði sem verið er að myndast við að setja á.

Þessu er nauðsynlegt að breyta og við flytjum því þessa breytingartillögu við 3. gr.

Af sjálfu leiðir að þar sem við höfum afgreitt þetta mál með jákvæðum hætti verðum við að leggjast gegn tillögu Vinstri grænna um að vísa málinu frá. Við höfum hins vegar það við málið að athuga sem ég hef fært hér fram.

Það er ýmislegt jákvætt við að gera fyrirtækið að hlutafélagi. Það gerir því mögulegt að vinna hraðar og jákvæðar að þeim verkefnum sem eru á sviði fyrirtækja af þessu tagi. Ég held að ekki eigi að leggja stein í götu þessa fyrirtækis þó að það sé í opinberri eigu. Það er jú vel að merkja gert ráð fyrir því að öll hlutabréfin verði í eigu ríkisins áfram.