132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:22]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Umræða um hlutafélagavæðingu raforkugeirans hefur að talsverðu leyti snúist um eignarhald. Þar höfum við fengið fjórar útgáfur frá stjórnarmeirihlutanum, talsmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað fyrir sölu á Rarik ef gott verð fæst, iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sem kunnugt er talað fyrir því að raforkugeirinn verði seldur og hefur ráðherra nefnt lífeyrissjóðina sérstaklega í því sambandi, formaður iðnaðarnefndar hefur síðan talað fyrir því að meirihlutaeign í Rarik eigi að vera á hendi ríkisins og síðan í fjórða lagi höfum við sjálft frumvarpið sem lögbindur að Rarik verði einvörðungu í eign ríkisins.

Í okkar huga snýst deilan ekki fyrst og fremst um eignarhaldið, heldur þá ákvörðun að markaðsvæða þessa starfsemi. Það hefur einfaldlega sýnt sig að fyrir neytendur er miklu skynsamlegra að hafa grunnþjónustu samfélagsins rekna sem þjónustu en ekki á grundvelli samkeppni. Alls staðar erlendis hefur markaðsvæðing raforkugeirans misheppnast. Samkeppnin hefur látið á sér standa, við hefur blasað samþjöppun, samráð, hærra verðlag og rýrari þjónusta. Við segjum nei við slíku.