132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:42]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um lagafrumvarp um heimilisofbeldi. Það sem þetta frumvarp gerir einkum er að bæta við refsiþyngingarástæðu í lögin þegar kemur að heimilisofbeldi. Að mati okkar í Samfylkingunni snýst þetta mál hins vegar ekki eingöngu um að þyngja refsingar, heldur um hvort við höfum lög sem ná utan um heimilisofbeldi með fullnægjandi og heildstæðum hætti.

Heimilisofbeldi er eitt algengasta mannréttindabrot á Íslandi en hvergi er minnst á heimilisofbeldi í íslenskri löggjöf og það er hvergi skilgreint. Það má því segja að heimilisofbeldi sé týndur brotaflokkur í kerfinu. Nú er dæmt eftir mörgum ólíkum lagaákvæðum fyrir heimilisofbeldi sem þó eru ekki fullnægjandi að því er varðar þetta ofbeldi.

Heimilisofbeldi hefur nefnilega margs konar sérstöðu. Það á sér stað innan veggja heimilisins og getur verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi sem oft nær yfir langan tíma og er jafnvel án sýnilegra áverka. Líkamsárásarákvæði núgildandi laga, sem fyrst og fremst leggja áherslu á hið líkamlega tjón en ekki hið andlega, ná því ekki almennilega utan um heimilisofbeldi og því hefðum við viljað að sett yrði sérstakt ákvæði í lögin um heimilisofbeldi sem tæki tillit til sérstöðu þessa ofbeldis. Það vildu einnig Stígamót, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum Háskóla Íslands, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Alþýðusamband Íslands.

Frú forseti. Við styðjum það hænuskref sem þetta frumvarp býður upp á en við teljum að þingheimur hefði átt að ganga lengra í þessum efnum og setja sérstakt lagaákvæði um heimilisofbeldi eins og aðrar þjóðir hafa gert.