132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:47]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðjum það frumvarp sem hér er verið að greiða atkvæði um en við viljum ítreka að hér er farið allt of skammt inn á þá braut og það þarf að stíga miklu ákveðnari og meira afgerandi skref. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er þetta: Við þurfum að ná að draga verulega úr og helst útrýma heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi er ein ljótasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis í samfélagi okkar. Boðið hefur verið upp á þverfaglegt samstarf til að fara í þær lagabreytingar sem þörf er á að gera í þessu tilliti. Ekki hefur verið tekið í þær útréttu hendur á nægilega jákvæðan hátt hvað varðar ríkisstjórnina. Það er nauðsynlegt að fara í þessa vinnu með þeim frjálsu félagasamtökum sem hafa gefið kost á sér og boðið fram fræðslu sína og reynslu í þessum efnum. Ég held að það sé einboðið að það verði að halda áfram á þessari braut. Til að ná almennilega utan um lagaákvæði er varða heimilisofbeldi þarf að fara í þverfaglega vinnu í þeim efnum.

Ég hef talað hér fyrir austurrísku leiðinni sem heimilar að lögregla fái í hendurnar tæki til að fjarlægja ofbeldismann af heimili í stað þess að börn og konur séu gerð burtræk af sínu eigin heimili, sem fórnarlömb, flóttamenn í sínu eigin landi og sett í kvennaathvarf á meðan ofbeldismaðurinn kemst upp með það að sitja inni á heimilinu.

Það er algerlega nauðsynlegt að þær leiðir séu skoðaðar sem nágrannalönd okkar hafa verið að festa í lög. Það er skrýtið að íslenska ríkisstjórnin skuli draga lappirnar í þessum efnum og skuli núna, þriðja árið í röð, geyma frumvarp mitt um austurrísku leiðina í allsherjarnefnd og heimila ekki að það frumvarp verði afgreitt út. Það hefur fengið mjög jákvæðar undirtektir, mjög góðar umsagnir og það er ekkert eftir annað en vilji ríkisstjórnarinnar til að stíga það skref, skrefið sem á vantar til að við séum hér að taka afgerandi skref í löggjöf sem kemur til með að draga úr heimilisofbeldi.