132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[16:54]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í því frumvarpi sem er að ganga til atkvæða er lagt til að veita heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar. Málið er skýrt með því að það sé talið nauðsynlegt að afsala til Landsvirkjunar þessari eign vegna þess að gert hafi verið ráð fyrir því í upphafi þegar Landsvirkjun var stofnuð að ríkið legði þessa eign til.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að í úrskurði óbyggðanefndar frá 2002, sem í raun hrindir þessu máli af stað, kemur fram að í tilvitnuðum lögum og lögskýringargögnum sé hvergi að finna áform í þá veru að stofna til hefðbundinna eignarréttarheimilda Landsvirkjun til handa að lands- og/eða vatnsréttindum. Í öðru lagi fékk ríkislögmaður málið til umsagnar og komst að þeirri niðurstöðu að hann telur niðurstöðu óbyggðanefndar ágætlega rökstudda, sannfærandi og eðlilega og telur jafnframt líklegt að niðurstöður nefndarinnar varðandi lands- og vatnsréttindi Landsvirkjunar á þessu svæði yrðu staðfestar af dómstólum ef eftir því yrði leitað. Þá kemst ríkislögmaður að þeirri niðurstöðu að úrskurður óbyggðanefndar hafi hvorki breytt eignarhlutföllum né réttarstöðu eigenda Landsvirkjunar. Í ljósi þessara álita ríkislögmanns og úrskurðar óbyggðanefndar vantar tilgang frumvarpsins. Ég spurði eftir því í umræðunni um frumvarpið hvers vegna frumvarpið væri flutt í blóra við álit ríkislögmanns og í andstöðu við úrskurð óbyggðanefndar, og fengust engin svör við því.

Ég spurði líka eftir því hvers virði þau réttindi sem verið væri að gefa Landsvirkjun með þessu frumvarpi væru en það fengust engin svör við því.

Ég vek athygli á því að ef frumvarpið nær fram að ganga er verið að afsala úr höndum ríkisins þessum réttindum að hálfu til annarra aðila. Þess vegna hlýtur að vera mikilvægt að vita hvers virði þau réttindi eru. Ég fer því fram á það, virðulegi forseti, að allsherjarnefnd komi saman á milli 2. og 3. umr. og afli upplýsinga við þessum spurningum og kanni tilgang frumvarpsins. Ég treysti mér ekki til að standa að þessu frumvarpi miðað við þær upplýsingar sem ekki hafa fengist og mun því ekki greiða atkvæði um málið, heldur sitja hjá og bíða, vonandi, betri upplýsinga um það við 3. umr. málsins.