132. löggjafarþing — 96. fundur,  29. mars 2006.

Heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar.

456. mál
[17:00]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eftir samráð við félaga mína sem eiga sæti í allsherjarnefnd geri ég eftirfarandi grein fyrir afstöðu okkar til málsins, nú þegar þessum vangaveltum hefur verið lýst hér. Ég las þetta mál, eins og sennilega flestir, með því að skoða fyrst og fremst athugasemdir við lagafrumvarpið. Í þeim stendur, með leyfi forseta:

„Forsvarsmenn ríkisins voru í góðri trú um að það væri eigandi þeirra réttinda sem lögð voru fram af þess hálfu til sameignarfélagsins enda byggðust þau á afsali frá fyrirtækinu Titan h/f frá árinu 1952.“

Það er ástæða til að halda að þarna sé í raun og veru sett fram röng fullyrðing. Svo heldur áfram:

„Þar sem eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun hefur ásamt öðru miðast við framsal vatnsréttinda og lands á þessu svæði til fyrirtækisins er það niðurstaða eigenda fyrirtækisins að nauðsyn beri til að flytja frumvarp þetta og leita með því eftir heimild Alþingis til að afsala til Landsvirkjunar beinum eignarrétti að þessum réttindum. Með því móti er tryggt að fyrirtækið verði að gengnum úrskurðum óbyggðanefndar eins sett og til var stofnað …“ — Hér er talað um úrskurð óbyggðanefndar en þegar úrskurður hennar er skoðaður kemur það fram sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan að í raun sé niðurstaðan sú að þessi gamli samningur, hvað varðar Titan, kemur málinu ekkert við. Óbyggðanefnd kemst að þeirri niðurstöðu að þessar réttarheimildir hafi verið utan við þann eignarrétt sem þar var um að ræða, eða menn töldu að um væri að ræða, eins og segir hérna, með leyfi forseta:

„Eins og að framan er rakið hefur löggjafinn í skjóli valdheimilda sinna veitt Landsvirkjun með lögum, ákveðinn en þó óskilgreindan nýtingarrétt á svæði því sem um ræðir í máli þessu. Samkvæmt c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998 er það hlutverk óbyggðanefndar að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Þau sérstöku réttindi sem löggjafinn hefur veitt Landsvirkjun falla í öllum meginatriðum utan þeirrar hefðbundnu eignarréttarlegu skilgreiningar sem liggur nefndu lagaákvæði til grundvallar.“

Þetta þýðir einfaldlega að það sem Landsvirkjun var lagt til á þessum tíma kom þessu Titan-máli ekkert við. Það hefur ekki orðið nein breyting á því eignarhaldi sem um var að ræða og var lagt til Landsvirkjunar við úrskurð óbyggðanefndar, engin breyting. Það virðist samt vera sem forráðamenn Landsvirkjunar hafi séð sér hag í því (Forseti hringir.) að fá eignarhaldið staðfest með einhverjum hætti.

Við munum sitja hjá við þetta mál núna og óskum eindregið eftir því að málið komi inn til nefndarinnar eins og um var talað en líka að iðnaðarnefnd fái að líta yfir það.