132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Staðan í hjúkrunarmálum.

[10:49]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hundruð manna hafa gripið til þess örþrifaráðs að fara í setuverkfall og aðgerðirnar, sem auðvitað orka tvímælis, bitna á þeim sem síst skyldi. Við þær aðstæður er ekki tíminn fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að koma hér í ræðustól Alþingis og benda hvor á annan. En það er ástæða til að þakka hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur fyrir að taka málið á dagskrá því að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra, sem báðir eru nýir í störfum, vita greinilega ekki hvor ber ábyrgð á málaflokknum. Það er full ástæða til þess að hvetja þessa nýju ráðherra til þess að hrista af sér þreytuna og reyna að átta sig á sínum nýju stöðum og hver ber ábyrgð á hverju og fara að taka á þessum þjónustusamningum því að við vitum það öll í þessum sal að daggjaldakerfi hjúkrunarheimilanna er handónýtt. Við sitjum á hverju hausti í fjárlaganefnd Alþingis og tökum á móti sveitarstjórnum og sjálfseignarstofnunum hringinn í kringum landið, á móti fólki úr öllum flokkum, Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Samfylkingu, Vinstri grænum og Frjálslyndum, sem lýsir því fyrir okkur hversu handónýtt þetta daggjaldakerfi sé, hvernig viðvarandi hallarekstur sé sá rammi og þau skilyrði sem stofnunum sem þjóna eiga öldruðum eru búin. Hér koma svo hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra og vita ekki hvorum það kemur við.

Ég segi, virðulegur forseti: Það kemur þeim báðum við og ég hvet þá til að grípa til aðgerða til þess að taka á því ófremdarástandi sem uppi er, hverjum svo sem það kann að vera að kenna. Það skiptir ekki máli hverjum það er að kenna. Það sem skiptir máli er að teknar séu þær ákvarðanir í þessum sal og í ríkisstjórn Íslands að taka á þeim vandamálum sem brenna á fólkinu í landinu og þá ekki síst þeim sem verst eru settir, því láglaunafólki sem hér hefur gripið til (Forseti hringir.) aðgerða og þeim öldruðu sem eiga að njóta þjónustu þeirra.