132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[11:04]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að taka þetta mál upp og vekja athygli á þeirri miklu skuldasöfnun sem átt hefur sér stað. Menn verða vitaskuld að átta sig á því að það þarf að greiða þessar skuldir. Forsendan fyrir því er að þessar lántökur séu arðsamar og skili arði og eins að atvinnustigið verði áfram mjög hátt í landinu. Það er forsendan fyrir því að hægt verði að greiða þessar skuldir. Þess vegna er mikilvægt að við tökum þessa umræðu og það er mikilvægt að við köllum eftir því hvernig ríkisstjórnin hyggst bregðast við því ástandi sem nú er.

Mér fannst afar lítið koma fram í svörum hæstv. forsætisráðherra um það hvernig ríkisstjórnin hygðist bregðast við. Mig langar því aðeins að vekja máls á því sem ég hef gert áður að bara það umhverfi sem bönkunum er boðið upp á, þ.e. nánast axlabönd og belti á allar lánveitingar sem þeir fá, hvetur til aukinna útlána. Þá er ég að vísa til verðtryggingarinnar annars vegar og ábyrgðarmannakerfisins hins vegar og svo er einnig hægt að benda á viðvarandi háa vexti. Allt þetta hvetur til mikilla útlána.

Eins vil ég nefna að sífellt er verið að tala um að ríkissjóður skuldi lítið. Vissulega hafa skuldir ríkissjóðs minnkað en það er minni umræða um það að eignirnar hafa einnig minnkað. Eignir hafa verið seldar fyrir um eða yfir 100 milljarða og þrátt fyrir þessa miklu eignasölu hafa útgjöld ríkisins aukist. Það verður fróðlegt að sjá hvernig menn taka á þeirri útgjaldaaukningu þegar að kreppir, vegna þess að menn hafa verið að selja ýmsar eignir sem hafa skilað arði og það er ljóst að þegar að kreppir verður sú kreppa ekki fjármögnuð með öðru en lánum. Ríkisstjórnin hefur því að sumu leyti verið (Forseti hringir.) afar óábyrg í sínum aðgerðum og það (Forseti hringir.) var eftir þeim sem mér fannst hv. þingmaður vera að kalla (Forseti hringir.) og því miður komu lítil svör frá hæstv. forsætisráðherra.

(Forseti (DrH): Ég bið hv. þingmenn að virða tímann.)