132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Aukning á skuldum þjóðarbúsins.

[11:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Einar Oddur sagði að það þyrfti sterk bein til að þola góða daga. Hann hefði átt að bæta við: sérstaklega ef það er tekið út á krít. Það er nefnilega svo að það þótti gott til sveita áður fyrr að eiga fyrir úttektinni. Er það merki um stöðugleika að Seðlabankinn er kominn með stýrivexti sína upp í 11,5%? Hv. þm. Einar Oddur gæti velt því fyrir sér hvaða efnahagsástand þarf að vera í landinu til að hann geti lækkað þá aftur.

(Forseti (DrH): Hv. þingmanni ber að nefna nafn þingmannsins fullu nafni. Kristjánsson er hann.)

Alveg hárrétt. Hann er bæði vel og rétt feðraður, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson. Hvaða aðstæður þurfa að skapast til að Seðlabankinn geti aftur lækkað vextina? Hafa menn hugleitt það? Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðum fram í haust tillögu til þingsályktunar um að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Þar eru raktar í nokkrum liðum það sem grípa á til, bæði til skamms tíma og lengri tíma. Þar m.a. teljum við mjög mikilvægt að nú þegar sé verðbólgunni náð niður fyrir viðmiðunarmörk Seðlabankans. Það er ekki gert.

Við leggjum líka áherslu á stöðugleika á vinnumarkaði. En við leggjum megináherslu á að efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar verði breytt, að hún standi ekki fyrir stórkostlegum ríkisdrifnum stóriðjuframkvæmdum. Það eru hinar hættulegu fjárfreku framkvæmdir í efnahagskerfi okkar og að ríkisstjórnin standi ekki fyrir þessum skattalækkunum á hátekjufólki, lækki frekar skattlagninguna á lágtekjufólki og að hún rétti kjör lægst launaða fólksins, öryrkja, aldraðra og þeirra sem lægstar hafa tekjur. Það mundi (Forseti hringir.) m.a. verða til þess að skapa efnahagslegan stöðugleika, frú forseti.