132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[12:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hv. þm. Birkir Jón Jónsson skýri sjónarmið sín eða hvað hann átti við þegar hann talaði um að hann útiloki ekki að eignarhlutur í Rafmagnsveitum ríkisins renni annað en til ríkisins. Það er hins vegar svolítið erfitt að átta sig á Framsóknarflokknum þegar kemur að eignarhaldi. Við höfum fengið mjög misvísandi yfirlýsingar, bæði frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og auðvitað viðskiptaráðherranum sem einn daginn vill selja og annan daginn ekki. En við erum náttúrlega með það skjalfest, yfirlýsingar og viðtöl þar sem glöggt kemur fram að hæstv. ráðherra hefur talað fyrir því að raforkugeirinn verði seldur. Ég held að menn verði að horfast í augu við það.

Hitt vil ég staðnæmast við sem hv. þingmaður segir um starfsmannamálin. Það er alveg rétt hjá honum að auðvitað eigum við að vera raunsæ gagnvart því sem sagt er í þessum sal um skuldbindingar gagnvart starfsfólki og hvað slíkar yfirlýsingar koma til með að halda. Við höfum brennt okkur á því á undanförnum árum að slíkt dugar skammt. Menn horfa til lagatextans. Engu að síður skiptir vilji manna máli í þessu efni. Vilji löggjafans skiptir máli og vilji manna innan fyrirtækisins, í þessu tilviki Rafmagnsveitna ríkisins, skiptir líka máli.

Mér finnst mikilvægt að heyra þessar yfirlýsingar hv. þingmanns, formanns iðnaðarnefndar. Hann bendir á að það er ekkert sem stendur í vegi fyrir að nýir starfsmenn komi til með að vera áfram innan A-deildar Lífeyrissjóðsins. Einnig hef ég trú á að það sé vilji innan fyrirtækisins og ég túlka einnig andsvar hv. þingmanns á þann veg að hann sé því hlynntur að samningsréttur núverandi félaga verði virtur.