132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[12:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er eitt að deila um stefnu og lagafrumvörp, það er annað þegar kemur að staðreyndum. Framsóknarflokkurinn getur ekki komist frá þeirri staðreynd að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, hefur lýst áhuga og áformum um að selja raforkugeirann og hún batt sig fyrst og fremst í þeim ummælum við Landsvirkjun. Þar sagði hún m.a. í viðtali, með leyfi forseta:

„Það er búið að móta þá stefnu að til þess muni koma,“ — þ.e. að opna fyrirtækið fyrir nýjum eigendum — „það er ekki okkar framtíðarsýn að ríkið eitt muni eiga þetta fyrirtæki til framtíðar.“

Síðar heldur hún áfram:

„En því er ekki að leyna að t.d. lífeyrissjóðir hafa verið nefndir í því sambandi.“

Það er ekki hægt að koma sér undan þessu. Mér finnst leggjast lítið fyrir framsóknarmenn að reyna að gera það því það eru ósannindi. Síðan geta menn skipt um skoðun, það er allt annað mál. Ég ber fulla virðingu fyrir fólki sem skiptir um skoðun. Ef það telur sig hafa rök fyrir því að breyta um skoðun þá er það allt í góðu lagi. Ef hæstv. ráðherra hefur skipt um skoðun og Framsóknarflokkurinn eða þessi hluti hans þá er það góðra gjalda vert. En frá þessu komast menn ekki. Ég hef lagt fram gögn sem sýna fram á þetta. Ég vil leggja áherslu á þetta undir lok þessarar umræðu.