132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[13:47]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Því miður heyrði ég ekki alla ræðu hv. þingmanns þar sem við sátum á nefndarfundi í samgöngunefnd á sama tíma og hér var þingfundur. Því kann að vera að hv. þingmaður hafi komið inn á það mál sem ég ætla að nefna en hann gerir þá grein fyrir því.

Ég spyr: Finnst hv. þingmanni að stefnt sé að samkeppni, eins og stefnt var að með raforkulögunum, ef horft er til þess að e.t.v. geti orðið um fleiri sameignarsamninga á milli fyrirtækja að ræða, eins og látið er liggja að í 5. lið nefndarálits með frumvarpinu þar sem beinlínis er talað um að þetta auðveldi það að fyrirtæki geti sameinast öðrum fyrirtækjum á raforkusviði? Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni eftir frétt sem birtist í Bæjarins besta á síðastliðnu hausti um hugsanlega sameiningu Orkubús Vestfjarða, Rariks og Landsvirkjunar í því raforkuumhverfi sem við erum í. Ég fæ ómögulega skilið hvernig menn uppfylla skilyrði raforkulaganna með því að e.t.v. fari ríkið, í ljósi þessarar hlutafélagavæðingar, í það verk að sameina þau hlutafélag sem það á. Það á Orkubú Vestfjarða, það er búið að hlutafélagavæða það. Í svari sem ég mun koma í eftir mun koma fram hvað ráðherra segir um Landsvirkjun.