132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[14:47]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að ég hafði ekki langa framsögu um þetta mál enda fannst mér það ekki stórt í sniðum sem slíkt en engu að síður mikilvægt. Hv. þingmaður ræddi um þessa tilskipun og endurskoðunina, sem fram fer á vegum okkur í viðskiptaráðuneytinu, sem varðar verðbréfamarkaðinn og tekur m.a. til starfshátta fjármálafyrirtækja og er ekki nógu langt komin svo við töldum nauðsynlegt að breyta lögunum hvað þetta varðar nú á vorþinginu. Vona ég að það fái góðar undirtektir í þinginu.

Önnur tilskipun var einnig til umfjöllunar og það er svokölluð lýsingartilskipun sem varðar það að flytja verkefni til Fjármálaeftirlitsins frá Kauphöllinni. Þar eru hlutir eru í vinnslu og við höfum ákveðinn frest, eins og hv. þingmaður þekkir, til að koma því fram. Þetta er gert í áföngum. Við höfum frest til 2009 en ég er ekki að segja að það verði ekki fyrr en þá sem þetta verður gert endanlega. Þegar það hefur náðst fram mun Kauphöllin ekki lengur hafa opinbert vald.

Síðan nefndi hv. þingmaður aganefnd. Það er hlutur sem stjórnin ákveður sjálf hvort hún vill gera eða ekki. Við höfum ekki viljað setja á lagaskyldu hvað það varðar. Það eru hins vegar hlutir sem mér finnst alls ekki óæskilegir en hv. þingmaður vitnaði m.a. í grein Áslaugar Brynjólfsdóttur í framhaldinu.

Þá voru nefndar norrænar kauphallir og ég hef lýst því yfir opinberlega að ég er jákvæð gagnvart því að Ísland sameinist þeim en það er hins vegar ekki ákvörðunarefni mitt.

Loks kom hv. þingmaður inn á svar sem er í undirbúningi í ráðuneytinu og við munum skoða frekar vegna þess að hv. þingmaður hefur óskað þess og ég hef tekið vel í það að svara því nákvæmar sem hún spyr um.