132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[14:50]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hélt að þetta væru svo stórar spurningar að hæstv. ráðherra mundi ekki geta klárað að svara þeim í örstuttu andsvari en hæstv. ráðherra ætlar greinilega að láta þetta duga, sem mér finnst mjög sérstakt.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, sem segist vera jákvæð gagnvart því að sameina Kauphöllina norrænum kauphöllum: Hefur hæstv. ráðherra eitthvað gert í því máli? Þá á ég við hvort hún hafi skoðað kosti og galla þess að gera það og hvort hún hafi á einhvern hátt komið þessum viðhorfum sínum til þeirra sem þar ráða ferðinni um að það sé jákvætt að gera það. Hvað er það sem stendur í vegi fyrir því?

Ég spyr hæstv. ráðherra líka um ákvæðin sem hér er verið að endurvekja í 17. og 18. gr. Hefur þetta einhver áhrif til seinkunar á því að hægt sé að flytja þau verkefni sem ég nefndi yfir til Fjármálaeftirlitsins þar sem þau eiga heima? Hafa þessi ákvæði einhver áhrif á það?

Hve lengi ætlar ráðherrann að þessi ákvæði eigi að gilda sem hér er verið er að leggja til að tekin verði upp aftur, því að þau áttu að falla úr gildi 1. janúar 2006 og það var á síðasta þingi sem við fjölluðum um það frumvarp?

Hvenær á þeirri heildarendurskoðun að ljúka sem er í gangi og ekki hefur tekist að ljúka? Ég spurði ráðherrann um hvert væri innihald þeirrar endurskoðunar en fékk engin svör við því. Það er mikilvægt að fá það fram, og eins varðandi norrænu kauphallirnar og skýrara en ráðherrann nefnir, hve lengi þau ákvæði eigi að gilda sem hér er verið að kalla eftir að verði endurvakin og hvort þetta hafi einhver áhrif á það að færa skráningarþáttinn yfir til Fjármálaeftirlitsins. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki hægt að færa þennan þátt strax yfir til Fjármálaeftirlitsins? Kemur eitthvað í veg fyrir að það sé gert? Það er á valdi hæstv. ráðherra að gera það með lögum og ég spyr hæstv. ráðherra hvort eitthvað komi í veg fyrir það.