132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[14:52]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir að hv. þingmaður vill gera ýmislegt strax. En það er nú svo að við viljum gera þetta í samvinnu við markaðinn að svo miklu leyti sem mögulegt er. Það gerir það að verkum, eins og alltaf þegar haft er samráð, að þá taka hlutirnir eitthvað lengri tíma. (JóhS: Er markaðurinn á móti þessu?) Það er ekki verið að tala um hver sé á móti og hver sé ekki á móti, enda er þetta tilskipun sem við þurfum að innleiða en það er eitthvert svigrúm í því.

Hvað varðar norrænar kauphallir þá hef ég ekki verið að beita mér mikið í þeim efnum, enda er þetta ekki mitt ákvörðunarefni, en ég hef látið það koma fram opinberlega, eins og ég sagði áðan, að ég tel að það væri jákvætt fyrir okkur að sameinast þeim. Ég hef kynnt mér þetta mál, m.a. á fundum í Kaupmannahöfn.

Hvað höfum við langan frest til að innleiða tilskipunina? Fresturinn sem við höfum er til 31. janúar 2007. Það styttist í að því þurfi að vera lokið, en er það vel á veg komið. Engu að síður mælir allt með því að gera þá breytingu sem við leggjum til með frumvarpi því sem hér er til umræðu og er í raun ósköp einfalt og vona ég að það fái góða og skjóta umfjöllun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.