132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

647. mál
[15:04]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur kannski ekki komið nógu skýrt fram hjá mér að þessi breyting á 17. og 18. gr. hefur engin áhrif á endurskoðunina eða hraða þess starfs sem þar er í gangi. En það er þetta með flutninginn yfir til Fjármálaeftirlitsins. Því er ekki að neita að þetta hefur í för með sér kostnað, viðbótarkostnað, fyrir Fjármálaeftirlitið. Ég er ekki að segja að það breyti einhverju um þessi mál en það eru þá alla vega hlutir sem þarf að tala um við markaðinn því það eru eftirlitsskyldir aðilar sem standa undir kostnaði við Fjármálaeftirlitið. Engu að síður vil ég ítreka að við erum að reyna að vinna þetta eins hratt og við getum en okkur eru takmörk sett eins og öllum í svona starfi. Og það er kannski ekki alveg að ástæðulausu sem fresturinn er þetta langur í tilskipuninni. Það hlýtur að hafa eitthvað með það að gera að menn telji að þetta sé nokkuð tímafrekt.

Ég held ég geti ekki svarað þessu mikið nákvæmar og hv. þingmaður verður þá bara að vera óánægður með mín svör en ég treysti mér ekki til þess að kveða úr um einhver tímamörk á hv. Alþingi og geta svo hugsanlega ekki staðið við það. Mér finnst þá betra að halda því alveg opnu hvenær þessu starfi verði endanlega lokið og hvenær Fjármálaeftirlitið fær ýmiss konar hlutverk sem Kauphöllin hefur í dag.