132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Mælingar, mæligrunnar og vigtarmenn.

620. mál
[15:16]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú þekki ég ekki nógu vel til þessa máls til að geta metið það í heild sinni en ég velti því svolítið fyrir mér vegna þess að hér er talað um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn að þá finnst mér einhvern veginn að það vanti aðeins upp á að maður geti áttað sig á því hvenær uppi er krafan um að nýta sér þessa mælitækni og hvort þetta krossast við aðrar reglur hvað þetta varðar. Ég bendi sérstaklega á reglugerð sjávarútvegsráðherra um vigtun sjávarafla. Þar er verið að fjalla um sömu hlutina, en þar eru á ferðinni aðferðir við mælingar sem eru af allt öðru tagi en hér er talað um. Þar er vissulega talað um vigtun líka en einnig er verið að tala um að meta afla og nota viðmiðanir til að meta heildarniðurstöðuna, t.d. í fullvinnsluskipum. Þetta — vegna þess að hæstv. ráðherra er viðskiptaráðherra líka — hefur margoft orðið að ágreiningsefni milli aðila í sjávarútvegi. Ég varpa fram þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort nægilega vel sé frá því gengið og ég tel að nefndin þurfi að skoða það að í umfjöllun um mæligrunna, vigtarmenn og mælingar sé leið fyrir þá sem telja að ekki sé nægilega vel að málum staðið hvað varðar mælingar. Ég nefni aftur þetta dæmi um fullvinnsluskipin og ætla að halda mig við það

Það er löngu komin fram tækni til að vigta allan afla úti á sjó ef menn vilja nýta sér hana og til eru vogir sem eru löggiltar sem mundu henta alveg ágætlega til þess. Það hefur verið prófað og reynt og allt í góðu lagi með það. Samt halda menn sig við mælingar úti í hafi sem eru með þeim hætti að allur unninn afli er vigtaður eftir á og síðan eftir tilteknum útreikningsreglum fundið út hver aflinn upp úr sjó hafi verið.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þetta: Þarf ekki að vera alveg ljóst að það sé óvilhallt ráð sem fari yfir það hvenær má nýta sér slíkar aðferðir og hvenær eigi að vera fyrirmæli bókstaflega um það að nota löggilt mælitæki til að mæla þetta en ekki einhvers konar ágiskanir í formi að vísu reynslutalna, og ég efast ekki um þær? En það hefur mjög oft og er alltaf verið að takast á um hvort þetta séu sanngjarnar leikreglur. Þeir sem vinna fisk í landi hafa margoft bent á að þeir mundu gjarnan vilja fá að vera í sömu stöðu og fullvinnsluskipin, þ.e. að vigta afurðirnar eftir á. Þá væru þeir komnir í samkeppnisaðstöðu við fullvinnsluskipin. En mér finnst þetta eiga erindi í umræðuna og ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að menn fari yfir það hvenær á að nýta þessi mælitæki og leggja þá af aðrar mæliaðferðir eins og ég lýsti áðan.

Ég vil beina þessu til hæstv. ráðherra og eins til nefndarinnar að þetta verði skoðað. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um þetta mál. Mér sýnist í fljótu bragði að þetta sé allt saman eðlilegt og gott að menn fái skýrar reglur um þessi efni en mér finnst vanta að þær séu skýrari um hvenær eigi að nota mælitækin.