132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

614. mál
[15:30]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að það hefði verið miklu betra að hv. þingmaður hefði ekki haldið þessa ræðu. Ég veit að það er dálítið langt gengið að segja það. En ég held að hann hafi vakið upp dálítið viðkvæmt mál, sem er þó ekki viðkvæmt að mínu mati. En miðað við það sem hv. þingmaður setti fram sem skoðun sína eða að minnsta kosti sem umfjöllunarefni þá held ég að ansi margir séu honum ósammála, m.a. ég.

Hins vegar tel ég það alveg rétt sem hann ýjaði að í máli sínu, þ.e. að mikil niðurgreiðsla á rafupphitun, sem er upp undir milljarður á ári, þýðir að hvatinn verður minni til að leita að heitu vatni og fara í hitaveituframkvæmdir. Engu að síður er sá hvati enn þá til staðar, a.m.k. er víða leitað að heitu vatni þótt 90% þjóðarinnar hafi nú þegar fundið heitt vatn og hiti híbýli sín upp með jarðvarma. Sérfræðingar álíta að þar gætu bæst við jafnvel 5% í viðbót þannig að ekki þyrftu nema 4–5% að nota rafmagn til upphitunar. Þá fyndist mér að við værum komin langt í þeim efnum. Við höfum náttúrlega slegið heimsmet nú þegar hvað þetta varðar, hvað þá ef við kæmumst upp í 95%.

En þetta eru mikil gæði. Það er ekki bara að það sé almennt heldur tel ég alls staðar ódýrara að hita upp með hitaveitu en að nota rafmagn. Hitaveitu fylgja að auki ýmis önnur gæði sem skipta fólk máli og nýtast í sambandi við atvinnurekstur svo sem ferðaþjónustu. Þetta er skoðun mín á þessu og ég held að yfirgnæfandi meiri hluti sé á hv. Alþingi fyrir því að halda þessu áfram svona.