132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

614. mál
[15:33]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir leitt ef ég hef sagt eitthvað sem ekki má segja eða haft skoðun sem ekki má hafa. (Gripið fram í.) Það er eðli niðurgreiðslna að þær skekkja hegðun manna. Eitthvað sem er náttúrulegt, eðlilegt og skynsamlegt verður ekki lengur náttúrulegt, eðlilegt eða skynsamlegt. Það verður heimskulegt.

Það verður heimskulegt að einangra húsin sín. Það verður heimskulegt að leita að öðrum orkugjöfum og viðleitni manna til að spara orku verður heimskuleg, t.d. að hafa kaldara í húsunum. Það sparar heilmikið að hafa 19 stiga hita í staðinn fyrir að hafa 24 stiga og er auk þess hollara. Þetta er allt eyðilagt með styrkjum. Það sem er fólki eðlilegt og skynsamlegt, sem hefur verið við lýði á landinu í þúsund ár verður allt í einu óskynsamlegt. Það er það sem ég gagnrýni.

Ég spyr hvort menn hafi skoðað aðrar leiðir sem mundu koma í veg fyrir að fólk sé hvatt til að hegða sér óskynsamlega, t.d. að taka hreinlega upp búsetustyrki. Allir íbúar sem sannarlega búa á einhverjum stað fengju styrki til að búa þar, af því það er kalt svæði. Síðan gætu þeir gert það sem þeir vilja til að laga þennan kostnað eins og annan kostnað, t.d. flutningskostnað og slíkt. Þeir gætu einangrað hús sín eða haft kaldara í þeim. Þeir geta notað rekavið og aðra orkugjafa eða borað eftir heitu vatni ef það er skynsamlegt og finnst á staðnum.