132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

614. mál
[15:51]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mér fannst umræðan áðan ekki alveg hafa náð að klárast. Við fjöllum eiginlega um að stóri bróðir hefur ákveðið að styrkja fólk vegna húshitunarkostnaðar. Við það skekkir stóri bróðir hegðun fólks, þ.e. það leitar ekki lengur að ódýrum orkugjöfum sem eru kannski nær og reynir heldur ekki að einangra húsin sín. Þetta sér stóri bróðir, frú forseti. Hann reynir að bregðast við og hafa vit fyrir fólkinu og styrkir það til að byggja hitaveitur. Hann kemur með styrk á móti styrk. Svo þegar hann er búinn að því kemur í ljós að einnig eru til einkahitaveitur og þá bregst hann við því með því að aðstoða þær líka við að sameinast og annað slíkt.

Stóri bróðir er alltaf að reyna að hafa vit fyrir fólkinu og reyna að minnka skaðann sem hann hefur sjálfur valdið með því að styrkja rafhitun. Næst mun koma tillaga um að hann styrki sérstaklega einangrun húsa og jafnvel það að menn séu með hitann á húsunum lægri en 24 eða 25 gráður. Þetta sýnir í hnotskurn hve skaðlegir slíkir styrkir eru, fyrir utan það að þeir skekkja val manna á búsetu yfirleitt. Menn velja sér búsetu vegna ýmissa atriða, atvinnu, fallegs landslags eða annars sem fólk vill gjarnan búa við. Á móti búsetunni vinnur alls konar kostnaður, flutningskostnaður, húsnæðiskostnaður og orkukostnaður. Með styrkjum er ákvörðun manna um búsetu rugluð. Það er þjóðhagslega óhagkvæmt og skaðar alla þjóðina. Menn eru hvattir til að gera eitthvað sem er óskynsamlegt.

Ég mundi leggja til við hæstv. ráðherra að hann leyfði þessari forboðnu hugsun að komast inn í ráðuneytið og leiða a.m.k. hugann að því hvort hverfa megi af þessari braut, taka upp annað form á styrkjunum eða hætta við styrkina alfarið. Það hlýtur að mega skoða þá hugsun, þótt ekki væri annað.

Mér finnst þetta mál komið út í ógöngur. Við borgum þúsund milljónir á ári í þessa styrki. Ekki veit ég hve margar fjölskyldur fá styrkina. Það eru örugglega umtalsverðar upphæðir sem menn fá ef þeir kaupa raforku en það er forsenda þess að menn fái styrki. Það er alltaf óeðlilegt að beina fólki í eina átt og segja því að hegða sér á vissan hátt, þá fái það umbun, jafnvel fyrir óskynsamlega hegðun. Ég skora á hæstv. ráðherra að leyfa þessari forboðnu hugsun minni að komast inn í ráðuneytið, þótt það verði til þess eins að reka hana aftur út.