132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[15:55]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Frumvarp um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna er komið til 3. umr. Við ræddum málið töluvert bæði við 1. og 2. umr. Hér er vissulega um að ræða framfaraspor í málum langveikra og alvarlega fatlaðra barna en engu að síður, eins og fram kom við 2. umr. þessa máls, eru ýmsir gallar á þessari löggjöf. Kosturinn er þó sá að hér er fest í lögbókina mál sem skiptir miklu fyrir foreldra langveikra barna, en á því eru, eins og ég nefndi, ýmsir gallar sem ég ætla að rekja hér. Ég mun þó ekki gera það í löngu máli vegna þess að við í minni hlutanum, stjórnarandstöðunni, fórum yfir þetta við 2. umr. Við í Samfylkingunni lögðum til margar breytingar sem allar voru felldar við 2. umr. málsins. En nú við 3. umr. málsins er flutt ein breytingartillaga sem er um efni sem við drógum til baka við 2. umr., sem fjallar aðallega um gildistökuákvæðið og gildissvið laganna.

Breytingartillagan snýr að því, með leyfi forseta, að lögin öðlist gildi 1. júlí 2006 og ákvæði laganna eigi við um börn sem greinast með alvarlega og langvinna sjúkdóma eða alvarlega fötlun 1. janúar 2006 eða síðar. Ákvæði 1. mgr. 15. gr. getur átt við þegar barn hefur greinst í fyrsta skipti 1. janúar 2006.

Þetta er ákvæði sem töluvert var tekist á um í nefndinni og var mikið rætt við 2. umr. þessa máls. Ýmsir umsagnaraðilar gerðu mjög alvarlegar athugasemdir við málið og óskuðu eftir breytingum á þessu. Ef frumvarpið verður afgreitt í þeim búningi sem stjórnarflokkarnir leggja til, verði ekki tekið tillit til þessarar breytingar, er verið að mismuna foreldrum sem búa við sambærilegar aðstæður. Ég tel að sú mismunun sé það mikil að hún jaðri við brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þannig fá foreldrar langveikra og fatlaðra barna sem greindust fyrir síðastliðin áramót engar greiðslur og er ekki einu sinni tekið undir það af meiri hlutanum að hafa heimildarákvæði til greiðslna í slíkum tilvikum er foreldrar sannarlega verða að hverfa af vinnumarkaði til lengri tíma vegna fötlunar eða alvarlegra veikinda barna. Skurðpunkturinn er sem sagt við 1. janúar og gildistakan 2006 og engar undantekningar á því nema að barn greinist þá í annað sinn.

Þetta eru mjög alvarlegir annmarkar á frumvarpinu. Foreldrar langveikra barna hafa gert mjög miklar athugasemdir við það ásamt því að gert er ráð fyrir þrepainnleiðingu á greiðslum, sem ekki koma að fullu til framkvæmda fyrr en 2008. Þær leiða m.a. til þess að á þessu og næsta ári fá foreldrar greiðslur í miklu skemmri tíma en börn sem greinast á árinu 2008. Sem dæmi um þá mismunun sem þetta felur í sér getur foreldri alvarlega fatlaðs barns sem greinist í desember á þessu ári fengið greiðslu þremur mánuðum skemur en barn sem greinist örfáum dögum seinna eða í byrjun árs 2007. Þetta er náttúrlega mjög alvarleg mismunun og alvarlegt misræmi þegar um er að ræða foreldra sem búa við nákvæmlega sömu aðstæður. Þegar svo vill til að barn fæðist fyrir áramót en hitt aðeins eftir áramót þá getur munað þremur mánuðum í greiðslum.

Við erum ekki að tala um neinar gífurlegar fjárhæðir, virðulegi forseti. Við erum að tala um að þegar málið er að fullu komið til framkvæmda kostar þetta um 130 milljónir. Það er nú allt og sumt, þegar þetta er að fullu komið til framkvæmda. Ég hef líkt þessu við eins og einn starfslokasamning því þetta eru ekki það háar fjárhæðir. En ef ríkisstjórnin mundi fallast á það sem er í breytingartillögu okkar, að þetta taki allt gildi, innleiðingin verði í einum áfanga, þá er hægt að koma í veg fyrir slíka mismunun.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að vitna til fréttaskýringar í Morgunblaðinu nýlega þar sem m.a. er verið að ræða við framkvæmdastjóra Umhyggju, Rögnu Marinósdóttur, um þennan þátt málsins. Hún telur að þessi framkvæmd sé alveg ótæk, eða innleiðing á þessum lögum, og segir, með leyfi forseta:

„„Greiningarviðmiðin eru óásættanleg. Við sem fulltrúar foreldra langveikra barna eigum erfitt með að vera sátt því það eru sárreiðir foreldrar úti í samfélaginu sem ekki hafa getað aflað sér tekna svo árum skiptir og munu áfram verða í þeirri stöðu þó svo að réttur á greiðslum sé kominn til vinnandi manns. Þau munu engan rétt hafa á greiðslum og okkur finnst óskaplega sárt að heyra í foreldrum sem trúa vart að þeir fái ekki krónu, búin að vera í fimm ár að huga að veiku barni sínu og sjá ekki fram á að komast út á vinnumarkaðinn á næstu árum. Þetta er ekki réttlæti,“ segir Ragna sem hefur óskað eftir fundi með ráðherra.“

Nú spyr ég hvort þessi fundur hafi farið fram sem framkvæmdastjóri Umhyggju boðar hér, en óskað var eftir fundi með ráðherra um þetta. Foreldrar þeirra barna sem eru alvarlega veik, barna sem fædd eru fyrir síðustu áramót, fá engar greiðslur og eru sárreiðir vegna þess að þeir eru ekki í sömu aðstöðu og foreldrar sem eignast barn eftir áramótin, sem er alvarlega fatlað eða langveikt. Þeir hafa ekki getað verið á vinnumarkaðnum í langan tíma og mundi muna mikið um það ef ákvæði væru í frumvarpinu, eins og við lögðum til, að í algerum undantekningartilvikum ef foreldri sannarlega ekki kemst út á vinnumarkaðinn, þá sé heimilt að veita slíkar greiðslur. Við gerum í breytingartillögu okkar tillögu um að foreldri geti „sem á barn með alvarlegan og langvinnan sjúkdóm eða alvarlega fötlun sem greinst hefur fyrir 1. janúar 2006 átt rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum. Skilyrðin eru þau að foreldri hafi sannanlega ekki komist út á vinnumarkað sökum verulegrar umönnunar vegna veikinda barnsins og skal foreldri sanna tekjuleysi sitt með skattframtali.“

Þarna er aðeins verið að opna fyrir að möguleiki sé á því í alvarlegustu tilvikunum að þessar greiðslur komi til. Það er það sem framkvæmdastjóri Umhyggju er hér að kalla eftir. Síðan hefur áfangainnleiðingin verið gagnrýnd vegna þeirrar mismununar sem hún getur falið í sér, að munað getur greiðslum í þrjá mánuði ef um er að ræða mjög alvarlega fatlað eða veikt barn, hvort það fæðist fyrir eða eftir áramót á umræddum innleiðingartíma.

Ég spyr því hæstv. ráðherra um hvort hann hafi eitthvað hugleitt málið. Þetta var að vísu komið fram eftir að hæstv. núverandi ráðherra tók við og þess vegna er fróðlegt að heyra hvort hafi orðið einhver stefnubreyting með nýjum ráðherra og hvort hann hafi skoðað málið. Hvort framkvæmdastjóri Umhyggju hafi gengið á hans fund eða hvort málið sé raunverulega í sömu stöðu og því verði engar breytingar.

Ég vil líka tala um fjárhæðina. Þetta er náttúrlega mjög lág fjárhæð, 93 þús. kr. Það segir sig sjálft, virðulegi forseti, að það er ekki nokkur maður sem getur lifað af 93 þús. kr. — nema þá helst hv. þingmaður sem gengur hér fram hjá ræðustólnum. Við höfum sett það fram og gerðum það við 2. umr. en það var fellt, að miða við að tekið væri upp sama greiðslufyrirkomulag og er varðandi fæðingarorlof af því að þetta eru greiðslur vegna vinnutaps. Þá finnst okkur eðlilegt að sama fyrirkomulag sé notað, viðmiðið 80% af tekjum síðustu mánaða sé notað.

Ég spyr hæstv. ráðherra um hvort hér sé ekki á ferðinni svo lágar greiðslur að hugleiða ætti að fara þá leið sem við töluðum um. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra, því boðað hefur verið að það eigi að leggja fyrir þingið, ég veit ekki hvort það er á þessu eða næsta ári og ég spyr ráðherrann hvort það verði á þessu þingi, að breyta eigi lögum um atvinnuleysisbætur í þá veru að þær eigi að vera tekjutengdar. Taka mið af tekjum fólks. Ég man ekki betur en um þetta hafi verið samið við aðila vinnumarkaðarins. Ég tel að þetta greiðsluviðmið sem stjórnvöld hafa lent með, 93 þús. kr., hafi verið haft til hliðsjónar atvinnuleysisbótum og þá spyr ég: Ef lögum verður breytt um atvinnuleysisbætur, telur ráðherrann þá að þessar greiðslur eigi að taka mið af atvinnuleysisbótum þannig að um væri að ræða að greiðslunum yrði breytt og þær tækju að einhverju leyti mið af tekjum, eins og verið er að gera varðandi atvinnuleysisbæturnar?

Ég taldi ástæðu til að minnast á það hvort á döfinni væri frumvarp um breytingu á atvinnuleysisbótum einmitt út af því ástandi, þó það sé óskylt mál, að þá tel ég ástæðu til að nefna það, virðulegi forseti, af því að ég er að spyrja um hvort von sé á breytingum á lögum um atvinnuleysisbætur og þá taki þessar greiðslur mið af því. Ég tel því ástæðu til að spyrja um hvort von sé á breytingu á lögum um atvinnuleysisbætur nú á þessu þingi og áformað að lögfesta þær þá á þessu þingi sem er nauðsynlegt með tilliti til þess sem er að gerast á Keflavíkurflugvelli. Þar eru fjöldauppsagnir, 620 Íslendingar sem eru þar í fastri vinnu eru að missa vinnu sína. Það mundi muna miklu fyrir þann hóp ef búið væri að lögleiða á þessu þingi atvinnuleysisbætur sem væru tekjutengdar. Ég man eftir því, það er stutt síðan, að skorað var á ríkisstjórnina af þeim starfsmönnum á Keflavíkurflugvelli sem þurfa að búa við þessar uppsagnir, að setja nú þegar í lög ákvæði um tekjutengingu atvinnuleysisbóta eins og lofað hafði verið. Þetta skiptir gríðarlegu máli fyrir þennan stóra hóp og ég spyr því um það af því tilefni og líka af tilefni þessa frumvarp sem við hér fjöllum um.

Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að fara dýpra ofan í þetta mál og fara aftur yfir þær umsagnir þar sem framkvæmdin er gagnrýnd mjög á þessu annars merka máli. En það eru mjög alvarlegar margar athugasemdirnar, eins og ég hef getið um, t.d. frá Umhyggju. Ég vil líka geta þess að alvarleg athugasemd hefur komið frá Tryggingastofnun sem færir mjög skýr rök fyrir þeim breytingartillögum sem stofnunin lagði til. En það er spurning í hvaða höndum framkvæmdin á að vera á þessu þegar það eru orðið að lögum. Lagt er til að það verði Vinnumálastofnun, ef ég skil málið rétt, sem hafi framkvæmdina með höndum en ekki Tryggingastofnun. Tryggingastofnun hefur gagnrýnt það mjög og fjölda umsagnaraðila finnst óeðlilegt að þetta sé hjá Vinnumálastofnun og leggja þeir til að framkvæmdin verði hjá Tryggingastofnun, sérstaklega út frá þeirri mikilvægu röksemd að oft er um mjög viðkvæmar upplýsingar að ræða og haga eigi framkvæmdum þannig að ekki sé verið að fara með slíkar upplýsingar í margar stofnanir. Tryggingastofnun hefur með umönnunarbætur að gera og hefur því upplýsingar um veikindi þessara barna. Það er alveg óþarfi, virðulegi forseti, að síðan eigi önnur stofnun, Vinnumálastofnun, að fá þessar upplýsingar líka.

Mér fannst athyglisvert það sem fram kom einmitt hjá Tryggingastofnun að foreldrar barna þurfa rétt eftir fæðingu að hafa samskipti við um fjórtán aðila, hvorki meira né minna. Foreldrar heilbrigðra barna, þegar þau fæðast, þurfa einungis að hafa samband við tvo til þrjá aðila. En foreldrar fatlaðra eða langveikra barna þurfa að hafa samskipti við um fjórtán aðila og það á enn að bæta við það með framkvæmd þessara laga, að fjölga þeim aðilum sem þeir sem eru með veik börn þurfa að leita til.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, því að við erum að ræða við nýjan félagsmálaráðherra, hvort hann sé sammála því að hafa framkvæmdina með þessum hætti. Hvort hann telji ekki að fagaðilar með þekkingu á málinu, Tryggingastofnun, sem er að kalla eftir að hafa framkvæmdina með höndum, hafi þetta einnig.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um málið þó að út af fyrir sig væri full ástæða til þess. Það er ástæða til að halda því til haga líka, virðulegi forseti, að greiðslur í lífeyrissjóð frá ríkinu eru lægri en almennt gerist í þessu frumvarpi. Talað er um 6%, en almennt er um að ræða 7%, þannig að það eru alls staðar lægstu tölurnar sem hægt er að finna sem félagsmálaráðherra eða stjórnvöld leggja til í frumvarpi þessu. Það skal auðvitað þakkað sem vel er gert. Þetta er þó komið á lögbókina, eins og ég segi. Þetta er framfaramál og við verðum þá að byggja á þessu. Þetta verður örugglega það mál sem Samfylkingin mun taka fast á ef hún kemst til valda, að gera betur í þessum mikilvæga málaflokki fyrir foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna því að þetta er mjög mikið sanngirnismál, virðulegi forseti. Það eru ekki nokkur ár, það eru áratugir sem samtök foreldra langveikra barna hafa verið að berjast fyrir að koma þessu máli í höfn. Þess vegna hélt maður satt að segja að myndarlegar yrði að þessu staðið en raun ber vitni, og ekki síst af því að málið er nú framkvæmt í samræmi við tillögu sem flutt var af þingmönnum úr öllum flokkum. Það var breið samstaða um að gera vel og átti að hafa hliðsjón af því sem gerist í þessum málum hjá grannþjóðum okkar annars staðar á Norðurlöndum en það er langt í frá að það sé gert með því frumvarpi sem hér liggur fyrir og á nú að fara að afgreiða.

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra um afstöðu hans til þeirra breytingartillagna sem liggja fyrir og greidd verða atkvæði um fljótlega, í byrjun næstu viku væntanlega. Það er um að lögin taki strax gildi en ekki þrepainnleidd með því misræmi og þeirri mismunun sem í því felst, að möguleiki sé að greiða foreldrum sem á barn með alvarlega langvinnan sjúkdóm, sem fæðst hefur fyrir 1. janúar 2006, ef sannarlega er um að ræða að viðkomandi komist ekki út á vinnumarkaðinn sökum verulegrar umönnunar vegna veikinda barna.

Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra um fjárhæðina, þessi 93 þúsund. Hvort von sé á lögum um breytingu á atvinnuleysisbótum og hvað sé þá í þeim lögum, við hvað er verið að miða í þeim lögum. Er búið að afgreiða þetta mál í ríkisstjórn og hversu langt er það komið? Hver eru helstu efnisatriði þess? Má búast við að ákvæði þessara laga taki mið af þeirri breytingu, þó það verði þá ekki fyrr en á næsta þingi? Ég spyr ráðherrann um það. Ég spyr hann um framkvæmdaraðilann. Hvort ekki sé rétt að þetta sé Tryggingastofnun frekar en Vinnumálastofnun. Ef ráðherrann svarar þessu með fjárhæðina og viðmiðið, hvort hann telji ekki sanngjarnt og eðlilegt líka að þetta taki mið af tekjum, annaðhvort í gegnum atvinnuleysisbætur eða þá með sama hætti og fæðingarorlofslögin eru. Og framkvæmdastjóri Umhyggju sagði réttilega að þarna væri ekki mikill munur kannski á umönnunarþörf nýfædds barns eða langveiks barns. Kannski er hún meira að segja meiri þegar um er að ræða alvarlega veikt barn en að annast nýfætt barn. Því er allt sem mælir með að það eigi að minnsta kosti ekki að ganga skemur en fæðingarorlofið, að þetta eigi að vera 80% af launum.

En að minnsta kosti hlýtur þetta þá að taka mið af tekjutengingu atvinnuleysisbóta ef þær eru á ferðinni og væri fróðlegt að heyra frá ráðherra hvort við eigum von á því frumvarpi inn á þing svo hægt verði að lögfesta það nú fyrir vorið og ekki síst þá líka með tilliti til þess sem ég nefndi, sem er atvinnuástandið á Keflavíkurflugvelli eftir þær upplýsingar sem hafa komið fram um brottför hersins, að búið er að segja þar upp hundruðum Íslendinga, 600 Íslendingum í fastri vinnu. Það mundi muna verulega fyrir þann hóp ef atvinnuleysisbætur væru tekjutengdar og hefur það fólk skorað á ríkisstjórnina að setja nú þegar í lög ákvæði um tekjutengingu atvinnuleysisbóta eins og lofað hefur verið. Það kallar einmitt mjög á að flýta afgreiðslu þess frumvarps og eins náttúrlega frumvarpsins sem við nú ræðum vegna þess að ég tel einboðið að að minnsta kosti taki þá þessar greiðslur mið af tekjutengingu atvinnuleysisbóta ef slíkt er á ferðinni núna á næstu vikum.