132. löggjafarþing — 97. fundur,  30. mars 2006.

Greiðslur til foreldra langveikra barna.

389. mál
[16:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp við 3. umr. Sjónarmið mín og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafa þegar komið fram. Hér er á ferðinni mál sem barist hefur verið fyrir innan þings og utan um árabil. Það er fagnaðarefni að það skuli ná fram að ganga, réttarbætur og kjarabætur til aðstandenda langveikra barna.

Við höfum gagnrýnt sitthvað í lögunum sem slíkum en eins og fram kom hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur töldum við í stjórnarandstöðunni að heppilegra hefði verið að fela Tryggingastofnun framkvæmdina en ekki Vinnumálastofnun, eins og gert er samkvæmt frumvarpinu. Þá gagnrýndum við harðlega að sett yrði lögþvingun á styrktar- og sjúkrasjóði verkalýðshreyfingarinnar. Samkvæmt frumvarpinu ber fyrst að tæma þau réttindi sem viðkomandi einstaklingar eiga í slíkum sjóðum áður en til greiðslu kemur frá Vinnumálastofnun. Þetta er annað atriðið sem við gagnrýndum.

Síðan gagnrýnum við náttúrlega nirfilsháttinn af hálfu stjórnvalda. Þegar þessi réttarbót er komin til framkvæmda að fullu mun hún kosta um 130 millj. kr. á ári. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að gera það í einu vetfangi heldur í áföngum, eins og lagt er til samkvæmt frumvarpinu, er með öllu óskiljanlegt og óréttlætanlegt.

Við höfum sameinast um breytingartillögur. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flutningsmaður að þeim og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum þær. Við greiddum atkvæði um sumar þeirra í lok 2. umr. málsins en eftir var haldið einni tillögu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur þegar gert grein fyrir, sem lýtur að gildistökunni. Það er spurningin um hvar skurðpunkturinn skuli vera eigi í þeim efnum, í frumvarpinu er það 1. janúar á þessu ári. Börn sem greinast fyrir þann tíma eiga ekki rétt til kjarabóta og þetta teljum við vera mjög slæmt og ámælisvert. Við tökum undir gagnrýni sem fram hefur komið frá Umhyggju og öðrum samtökum sem hafa bent þeirri nefnd sem með þetta fer á að þessu þurfi að breyta. Við höfum svarað því kalli, enda í samræmi við skoðanir okkar. Breytingartillagan liggur fyrir.

Ég kom hins vegar fyrst og fremst í pontu til að árétta stuðning Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við þær breytingartillögur sem hér hefur verið gerð grein fyrir.